Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Jólatré og skraut frá skógræktarfélögunum – fyrstu möguleikar!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Mörg skógræktarfélög selja jólatré og/eða skreytingaefni fyrir jólin. Fyrir þá sem vilja vera snemma á ferðinni í jólaundirbúningnum og huga snemma að jólatrénu eru nokkur félög sem eru með sölur núna í lok nóvember og byrjun desember. Sjá nánar á www.skog.is/jolatre

Skógræktarfélag Siglufjarðar verður með jólatrjáasölu laugardaginn 24. nóvember í Skarðdalsskógi.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Þöll virka daga í desember kl. 9-18.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum í Heiðmörk helgina 1-2. desember kl. 12-17.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Sjálfboðaliða gróðursetningardagur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með sjálfboðaliða gróðursetningadag laugardaginn 15. september. Byrjað verður kl. 10:00 og mæting er á bílastæði við sparkvellina skammt fyrir vestan Hvaleyrarvatn. Skógræktarfélagið mætir með plöntur og verkfæri og áhugasamir mæta með góða skapið og vinnugleðina!

Gróðursett verður í brekkurnar við Hamranes, þar sem tippurinn var áður (gömlu haugarnir).

Að gróðursetningu lokinni býður Skógræktarfélagið upp á veitingar í Þöll.

Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 eða 894-1268.

Sungið í Skógarsal Háabjalla í Vogum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Þriðja árið í röð verður haldin söngskemmtun í skóginum í Háabjalla á útivistarsvæði sveitarfélagsins Voga, en söngskemmtunin er hluti af Fjölskyldudögum Voga dagana 13. – 19. ágúst og er haldin miðvikudaginn 15. ágúst kl. 19:30-22:00.

Þeir sem fram koma eru:
Svavar Knútur – söngur hans og gítar- og ukulele-leikur mun hljóma vel í skóginum 
Gunnar Guttormsson syngur norrænar vísur með harmónikuleik Njáls Sigurðssonar
Feðgarnir Ólafur Baldvin og Sigurður Baldvin úr Keflavík koma með eitthvað óvænt 
Eyþrúður úr Vogum leikur eitthvað létt á rafmagnsfiðlu og einnig í söngatriði foreldra sinna, Þorvaldar og Ragnheiðar, sem flytja eigin lög við ljóð Önnu S. Björnsdóttur
og fleiri!

Svo syngja allir saman nokkur lög með söngfélaginu Uppsiglingu.

Samkomugestir fá drykki og brauðdeig til að baka á teini í eldi. Börnunum leiðist það ekki!
Að þessum atburði standa Skógræktarfélagið Skógfell og Norræna félagið í Vogum. Aðgangur er ókeypis.

Bílvegur að Háabjalla er af Grindavíkurvegi andspænis Sólbrekkum og Seltjörn. Einnig verður gengið og hjólað úr Vogum undir Reykjanesbraut við Vogastapa.

Það stefnir í góða skógarferð í Háabjalla í Vogum!

Ný trjátegund á Vopnafirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Það var lengi trú manna að ekki væri hægt að rækta tré á Vopnafirði en undanfarin 50 ára hafa sýnt að sú trú manna stenst ekki. Þar þrífast margar tegundir og hæstu tré eru trúlega komin vel yfir 10 m á hæð. Sífellt bætast við tegundir sem þrífast hér. Við góð vaxtaskilyrði og svolitla auka umönnun er jafn vel hægt að rækta tegundir eins og eik, álm, ask og eplatré.

Nýlega bættist svo ný og einkar áhugaverð tegund við, sem ekki hefur sést áður og virðist mjög sjaldgæf á Íslandi. Tréð fannst skammt utan við þorpið nálagt tóftunum af bænum Hlíðarenda í norðanverðum Tangasporði. Tréð er sérstak afbrigði af ösp (Populus) allt að 5 m á hæð með mjög sérstaka ávexti. Það sem einkennir þessa ávexti eru skærir litir og einkennileg form. Ávextirnir virðast bætast við hvenær sem er á árinu. Ákveðið hefur verið að gefa trénu nafnið: Snuddu-tré (Populus gummata).

Áhugavert verður að fylgast með þroska trésins á komandi árum. – Fjölgar ávöxtum? Koma nýjir litir? Hverfa ávextirnir? Og síðast en ekki síst – á tréð eftir að fjölga sér á landsvísu?


snuddutre

Hönnun úr hráefni úr Heiðmörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hönnunarmars fer fram í tíunda sinn dagana 15. – 18. mars. Einn viðburður þar er með sérstaka tengingu við Skógræktarfélag Reykjavíkur, en hönnuðurinn Björn Steinar Blumenstein verður með sýningu er heitir Skógarnytjar, í Smiðjunni (skemmunni) á Elliðavatni. Þar hefur Björn nýtt hráefni (við) úr skóginum á Heiðmörk til að framleiða frumgerðir eftir innsendum tillögum og er hér um áhugaverða nýsköpun í viðarnýtingu að ræða.

Eftir skógareyðingu fyrri alda er viður aftur að verða að auðlind hérlendis þökk sé því skógræktarstarfi sem unnið hefur verið, meðal annars af skógræktarfélögunum.

Nánari upplýsingar um viðburðinn eru á heimasíðu Hönnunarmars – https://honnunarmars.is/dagskra/skogarnytjar

Bæklingadreifing og Skógræktarfélag Íslands taka höndum saman

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Bæklingadreifing hefur samið við Skógræktarfélag Íslands (SÍ) um gróðursetningu trjáa sem svara því pappírsmagni bæklinga sem Bæklingadreifing dreifir á ári. Munu 1.000 tré verða gróðursett árið 2018, en áætlað er að Bæklingadreifing dreifi um 200 þúsund bæklingum á árinu.

„Við hlökkum mikið til samstarfsins við SÍ ,“ segir Jón Rúnar Jónsson, sölu- og rekstrarstjóri Bæklingadreifingar, en fyrirtækið annast dreifingu kynningarefnis fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög til ferðamanna.

„Almennt séð er ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi mjög umhugað um umhverfið og mætti segja að við séum að verða við kröfum þeirra um sjálfbærni og umhverfisvernd, sem við tökum að sjálfsögðu fagnandi,“ segir Jón.

SÍ fagnar samstarfinu og áhuga starfsmanna og eigenda Bæklingadreifingar. Um leið ber félagið þá von í brjósti að fyrirtæki í ferðaþjónustu ásamt sveitarfélögum fylgi í fótsporið og hugi með markvissum hætti að því að draga úr vistsporum sínum og marki ábyrga framtíðarsýn með sýnilegum hætti. Skógrækt og ræktun trjágróðurs er ein áhrifaríkasta leiðin til að sporna við loftslagsvandanum um leið og hún stuðlar að sjálfbærri þróun.

Skógræktarfélag Íslands mun gróðursetja andvirði framlags Bæklingadreifingar á eignajörð félagsins á Úlfljótsvatni í Grafningi þar sem mörkuð hefur verið ákveðin spilda til verkefnisins. 

undirritunvinco

Jón Rúnar Jónsson, sölu- og rekstrarstjóri Bæklingadreifingar og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undirrita samstarfssamning (Mynd: RF).