Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Vinnudagar á Fossá 10. og 17. október

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 10. október verður haldinn vinnudagur á Fossá í Hvalfirði. Haldið verður áfram að taka tré, sem féllu til við grisjun, út úr skóginum niður á stíginn.
Miðað er við að vera komin á Fossá um hálf tíu. Allar vinnufúsar hendur eru velkomnar.

Laugardaginn 17. október verður einnig vinnudagur og er búið að fá vagn sem nota má til að taka trén af stígnum og flytja þau upp að húsinu.

Gott væri að sameinast í bíla eftir því sem mögulegt er.

Bragi Michaelsson
formaður Skógræktarfélags Kópavogs
bragimich (hjá) simnet.is, sími 8982766.

Eiríkur Páll Eiríksson
formaður Fossár

 

 

Haustkransar á Elliðavatni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Lærðu að binda þinn eigin haustkrans á útidyrahurðina eða stofuborðið úr reyniberjum, lyngi, mosa eða öðrum efnum!

Auður Árnadóttir blómaskreytir heldur námskeið á Elliðavatni í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur mánudaginn 5. október klukkan 19-22. Allir velkomnir! 

Verð: 5000 kr. Efni er innifalið en ef þátttakendur vilja koma með reyniber eða annað efni er það velkomið. Vinsamlega koma með litlar garðklippur ef þið eigið. Skráning hjá Ástu í síma 844-8588 eða astabardar(hjá)simnet.is.

haustkransar

Tré ársins 2009

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Tré ársins 2009 er hengibjörk (Betula pendula) í Kjarnaskógi á Akureyri. Hengibjörk er fágæt trjátegund hérlendis og er tréð í Kjarnaskógi sérlega glæsilegur fulltrúi tegundarinnar. 

Tréð var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 24. september, í yndislegu haustveðri. Hófst athöfnin með því að Sigrún Stefánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga bauð gesti velkomna. Næstur hélt ávarp Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar. Hann tók svo við viðurkenningaskjali af þessu tilefni úr hendi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem einnig hélt stutt ávarp. Gestum var svo boðið upp á ilmandi ketilkaffi, framreitt af starfsmönnum Skógræktarfélags Eyfirðinga. Að lokum mældi Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga tréð. Inn á milli atriða var svo flutt tónlist.

Tréð reyndist við mælinguna vera 10,95 cm á hæð. Það klofnar í tvo stofna í um 20 cm hæð og hafa stofnarnir þvermál 20 og 21 cm í brjósthæð. Það er gaman að segja frá að í kringum 2000 voru ýmsum trjám í Kjarnaskógi gefið nafn, í tengslum við ljóðagöngu sem þá var haldin og var Tré ársins meðal þeirra. Fékk það nafnið Margrét og hefur gengið undir því síðan. Margrét er gróðursett á áttunda áratugnum, líklega með fræi frá Finnlandi. Ræktaðir hafa verið græðlingar af henni, þannig að finna má „afkomendur“ hennar á nokkrum stöðum. Búið er að leggja kurlstíg að trénu, þannig að auðvelt á að vera að heimsækja Margréti.

Skógræktarfélag Íslands velur Tré ársins ár hvert og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt.

trearsins-1
Tré ársins 2009 – „Margrét“ – skartar sínu fegursta í haustblíðunni (Mynd: BJ).

trearsins-2
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, afhendir Hermanni Jóni Tómassyni, bæjarstjóra Akureyrarbæjar, viðurkenningaskjal (Mynd: BJ).

trearsins-3
Gestir gæða sér á ilmandi ketilkaffi (Mynd: BJ).

trearsins-4
Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, mælir tréð eftir öllum kúnstarinnar reglum (Mynd: BJ).

Gróðursetningarferð í Seldal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn kemur,þann 26. september, efnir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar til gróðursetningarferðar í Seldal. Vegna þurrka var óvenju lítið gróðursett á útivistarsvæðum félagsins í sumar. Því óskar félagið nú eftir sjálfboðaliðum til gróðursetningar.

Við munum hittast kl. 10.00 í Seldal og gróðursetja fram til hádegis um það bil. Félagið mun bjóða upp á hressingu í hádeginu að verki loknu í bækistöðvum félagsins í Höfðaskógi. Plöntur og verkfæri verða á staðnum. Til að komast inn í Seldal er ekið niður að Hvaleyrarvatni og ekið áfram framhjá húsi bæjarins við vatnið og í suður yfir Seldalsháls.

Nánari upplýsingar eru veittar í símum félagsins: 555-6455 / 893-2855.

skhafn-grodursetningseldal
Haustlitir við Hvaleyrarvatn (Mynd: RF).

Nýr stígur vígður í Garðabæ

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í sumar var unnið að ýmsum verkum á skógræktar- og útivistarsvæðum í Garðabæ, undir leiðsögn Skógræktarfélags Garðabæjar. Var það hluti af atvinnuátaksverkefni Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu við Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabæ. Unnið var að ýmsum verkefnum, svo sem ruslatínslu, áburðargjöf á trjáplöntur og heftingar útbreiðslu lúpínu, en stærsti verkþátturinn var stígagerð. Borið var ofan í eldri stíga og lagður nýr stígur í Smalaholti.

Mánudaginn 21. september var nýi stígurinn í Smalaholti vígður formlega og mættu á fjórða tug manna til vígslunnar. Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar flutti ávarp og því næst opnaði hún stíginn formlega með því að klippa á borða yfir hann. Naut hún við það aðstoðar Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Að klippingu lokinni var stígurinn blessaður af séra Hans Guðberg Alfreðsson og fengu gestir eftir það að prófa stíginn og ganga hringinn eftir honum. Í lokin var gestum boðið upp á heitt kakó í tilefni dagsins og flutti Magnús Gunnarsson þá stutt ávarp.

Stígurinn er vel gerður uppbyggður stígur og er alls á annan kílómetra á lengd. Er hann fyrsti áfangi af innstígum í Smalaholti, sem félagið lét skipuleggja ásamt áningarstöðum í tilefni 20 ára afmælis félagsins.

stigurgbr
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar, klippa á borða og opna þar með formlega nýja stíginn (Mynd: Sk. Garðabæjar).

Tré ársins 2009

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Tré ársins 2009 verður útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 24. september kl. 16:30.

Tré ársins að þessu sinni  er hengibjörk  (Betula pendula) í Kjarnaskógi á Akureyri. Hengibjörk er fágæt trjátegund hérlendis og er tréð í Kjarnaskógi sérlega glæsilegur fulltrúi tegundarinnar. 

Mæting er við þjónustuhúsið í Kjarnakoti (nr. 1 á korti að neðan), en þaðan er stutt ganga að trénu.

Skógræktarfélag Íslands velur Tré ársins og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt.

trearsins-kjarnakot

Jólaskógurinn í Brynjudal – byrjað að bóka!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 5.-6., 12.-13. og 19.-20. desember, auk  sunnudagsins 29. nóvember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær og því betra að bóka dag og tíma fyrr en síðar til að vera viss um að fá þann tíma sem hentar best.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands  í síma 551-8150 eða á netfangið skog@skog.is.

brynjudalur-byrjadadboka2

Skógræktarfélag Kópavogs: Vinnudagur á Fossá

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 12. september verður árlegur vinnudagur að hausti á Fossá í Hvalfirði. Mæting er kl. 10 og verða veitingar á staðnum.

Það er  mjög margt sem þarf að gera á Fossá að þessu sinni.

  • Eftir mikla grisjun þarf að taka til í skóginum þannig að hægt sé að koma grisjunarvið í burtu og selja og afla félaginu þannig fjár.
  • Ganga með girðingu kringum jörðina og leggja mat á ástand hennar og brýnustu aðgerðir næsta sumar.
  • Velja torgtré fyrir komandi fæðingarhátíð frelsarans.
  • Taka til á svæðinu eftir framkvæmdir við aðkomu.
  • Planta 6 – 8 bökkum af greni í jólatrjáakra sem voru úðaðir með roundup, tilraun sem metin verður næsta sumar, Plöntur sem félagsmenn settu niður á vinnukvöldi síðastliðið vor þrífast með ágætum, öllum til mikillar gleði.
  • Fræðast um það sem unnið hefur verið að í sumar og er í vændum vegna opins skógar næsta ár. Sjá svæðið, með eigin augum.

Nánari upplýsingar veitir Eiríkur Páll, s. 864-2865.

skkopvinnudagur

Skátar í heimsókn í Brynjudal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Undanfarna daga hefur hópur franskra skáta, sem hingað komu á nýafstaðið skátamót, Roverway 2009, dvalið í góðu yfirlæti í Brynjudal í Hvalfirði, þar sem Skógræktarfélag Íslands er með jólatrjáaræktun. Skátarnir hafa þar unnið að ýmsum verkum, svo sem gróðursetningu og lagfæringu á vegum og annarri aðstöðu, undir leiðsögn starfsmanna Skógræktarfélag Íslands.  Einnig hefur teymi grisjunarmanna verið að störfum í Brynjudal undanfarna tvo daga og hafa skátarnir aðstoðað við að draga út úr skóginum. Grisjunarteymið er hluti af atvinnuátaki 2009-2011, en þeir hafa verið undanfarnar vikur að störfum í næsta nágrenni, á Fossá í Hvalfirði.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frönsku skátana, ásamt grisjunarmönnum (í hlífðarbúningum), starfsmönnum skógræktarfélagsins (t.h.) og „aðstoðarverkstjóra“, honum Depli (fyrir miðju).


skatarbrynjudal