Skip to main content
Flokkur

Skógargöngur

Ganga hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar: Skyggnst í skóginn

Með Skógargöngur

Laugardaginn 26. apríl stendur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir gönguferð um Höfðaskóg og yfir í skóginn í Selhöfða, en þar hefur verið grisjað töluvert að undanförnu og opnuð ný leið í gegnum skóginn. Skógurinn í Selhöfða var gróðursettur snemma á 9. áratug síðustu aldar.

Lagt verður af stað frá bækistöðvum félagsins og Gróðrarstöðvarinnar Þallar við Kaldárselsveg kl. 14:00. Boðið verður upp á kaffi í Þöll að göngu lokinni.
 

Gangan er hluti af dagskrá „Bjartra daga“ í Hafnarfirði, sem standa dagana 23.-27. apríl.

Sala á jólatrjám hjá skógræktarfélögum síðustu daga fyrir jól

Með Skógargöngur

Skógræktarfélög víða um land selja jólatré núna fyrir jólin. Þau félög sem taka á móti fólki í skóginn síðustu daga fyrir jól eru:

Skógræktarfélag A-Húnvetninga er með jólatrjáasölu í Gunnfríðarstaðaskógi 21.-22. desember kl. 11-15.

Skógræktarfélag Austurlands er með jólatrjáasölu í Eyjólfsstaðaskógi, 21.-22. desember kl. 12-16.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, 21.-23. desember kl. 10-16.

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandi á Þelamörk, 21.-22. desember kl. 11-15.

Skógræktarfélag Eyrarsveitar er með jólatrjáasölu í Brekkuskógi, 20.-21 desember, kl. 13-18.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði, 21.-22. desember kl. 10-18.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið kl. 10-16 um helgar, en kl. 12-16 virka daga, til 23. desember.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, 21.-22. desember kl. 11-16. Jólaskógurinn í Hjalladal á Heiðmörk er opinn 21.-22. desember kl. 11-16.

Skógræktarfélag Stykkishólms er með jólatrjáasölu í Vatnsdal og í Tíðási 21.-23. desember, kl. 12-15.

Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði 21. desember kl. 10:30-15.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is.

Kvöldganga í skógi

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 8. október, kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur Anna Borg, formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar. Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn.

Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665-8910.

 

kvoldganga

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Ganga um Suðurbæinn

Með Skógargöngur

Laugardaginn 5. október stendur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir göngu um Suðurbæinn. Hugað verður að trjágróðri í görðum bæjarbúa. Fyrirhugað er að mæla stærstu trén sem verða á vegi göngumanna. Einnig verður skoðað hvaða tegundir garðagróðurs leynast bak við garðveggina. Í fyrra var mælt grenitré við Brekkugötu 12, sem reyndist vera tæpir 21 m á hæð. Er það hæsta tré bæjarins svo vitað sé. Gangan hefst við Suðurbæjarlaug kl. 10:00 og stendur í um tvo tíma. Nánari upplýsingar í síma félagsins: 555-6455 eða 894-1268.

Sveppaganga í Bolholti

Með Skógargöngur

Sunnudaginn 22. september kl. 13:00 stendur Skógræktarfélag Rangæinga fyrir göngu í Bolholtsskógi þar sem Sigríður Heiðmundsdóttir kynnir sveppi skógarins og annar gróður verður skoðaður.

Gangan hefst við aðalinnganginn. Allir velkomnir!

Skógardagur barnanna í Guðmundarlundi

Með Skógargöngur

Skógurinn býr yfir dulúð þar sem allt er bæði dularfullt og spennandi.

Laugardaginn 21. september efnir Skógræktarfélag Kópavogs til ævintýralegrar fræðsludagskrár þar sem skógurinn verður skoðaður með augum litla vísindamannsins.

Meðal þess sem gera á, er að fella risastórt tré og greina aldur og skoða sögu þess. Hugað verður að jólatrjám og sögu þeirra. Þá verður grafið ofan í jörðina og leitað að orminum ógurlega í Guðmundarlundi og fjársjóðnum mikla sem skógarálfanir földu einhvern tíma í eld, eld gamla daga.

Það verður margt að gerast í Guðmundarlundi því að í skjóli trjáa og runna gerast ævintýrin.

Dagskráin hefst stundvíslega kl. 11:00 og stendur til kl. 13:00.

Að dagskrá lokinni verður boðið upp á seiðandi kakó og djús.

Foreldrar, afar og ömmur, frændur og frænkur og eldri systkini eru hvött til að finna barnið í sjálum sér og taka þátt með börnunum í skógardegi barna í Guðmundarlundi.

Leið að Guðmundarlundi má sjá á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs (smellið hér).

Trén í Laugardal – fræðsluganga

Með Skógargöngur

Fimmtudaginn 22. ágúst kl. 20 standa Grasagarðurinn, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Borgargarðar í Laugardal fyrir göngu þar sem ræktunarsaga Laugardalsins verður kynnt og trén og annar gróður skoðaður.

Um leiðsögn sjá þeir Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, og Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og starfsmaður Borgargarða.

Gangan hefst við aðalinnganginn. Verið velkomin.

Tré ársins 2013

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands útnefnir alaskaöspina (Populus balsamifera ssp. trichocarpa) í garðinum á Freyshólum á Völlum Fljótsdalshéraði Tré ársins 2013 við hátíðlega athöfn, sunnudaginn 18. ágúst kl. 14. Útnefningin er tileinkuð áttræðisafmæli bræðranna Baldurs og Braga Jónssona frá Freyshólum.

Baldur og Bragi hófu störf hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað tvítugir að aldri þar sem þeir störfuðu alla sína starfsævi, samfellt í 50 ár, allt til ársins 2003. Fyrir fimmtíu árum gróðursettu þeir alaskaöspina í garðinn við Freyshólabæinn. Tréð sem er nú rúmlega 17 metra hátt og tæpir tveir metrar að ummáli ber ævistarfi þeirra og ástríðu þeirra bræðra fyrir skógrækt fagurt vitni. Þá er skógurinn ofan bæjarins á Freyshólum verk þeirra bræðra.

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp við athöfnina.

Boðið verður upp á tónlistaratriði og veitingar.

Allir velkomnir!

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.