Skip to main content
Flokkur

Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur um ræktun trjáa og runna

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðsluerindis í Menntaskólanum í Kópavogi þriðjudaginn 16. október kl. 19:30.

Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur flytur erindi um ræktun trjáa og runna.  Erindið nefnir hann “Rót vandans”.

Í erindi sínu mun Kristinn meðal annars fjalla um nokkra lykilþætti í ræktun, til að mynda jarðveg og jarðvegsgerð og þær kröfur sem plöntur gera til jarðvegs. Þá verður kennt hvernig á að bera sig að við upptöku trjágróðurs til flutnings, gróðursetningar og áburðargjöf.

Gengið er inn í Menntaskóla Kópavogs frá Digranesvegi um súlnainngang í vesturenda. Salurinn er á 3. hæð og er lyfta við inngang.

Kaffiveitingar, inngangseyrir 500 kr.

Allir velkomnir.

Haustganga um Hafnarfjörð

Með Skógargöngur

Laugardaginn 6. október stendur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir göngu um bæinn.  Hist verður í Hellisgerði  kl. 10:00 og skoðuð trén í Gerðinu, en síðan rölt um bæinn og hugað að gróðri í nærliggjandi hverfum. Nokkur hávaxin tré verða hæðarmæld.

Leiðsögumenn verða starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gangan tekur um tvær klukkustundir.

Allir velkomnir!

Nánari upplýsingar fást í síma félagsins: 555-6455.

Fræðsluganga í Guðmundarlundi: Fræsöfnun og sáning

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðslugöngu laugardaginn 22. september um Guðmundarlund undir leiðsögn Kristins H. Þorsteinssonar garðyrkjufræðings.

Hægt verður að safna fræi af ýmsum tegundum trjáa og runna. Kristinn ætlar að fræða fólk um gróður í Guðmundalundi, sýna hvernig tína á fræ, hreinsa þau og verka. Þá fer fram verkleg kennsla í sáningu fræja bæði í bakka og beint á útjörð.

Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér poka undir fræin.

Lagt verður upp í gönguna frá aðalinngangi Guðmundarlundar kl. 11:00 og lýkur fræðslugöngunni kl. 13:00.

Sérstakur gestur hjá okkur verður Auður Jónsdóttir garðyrkjufræðingur, sérfræðingur í sáningu og uppeldi matjurta.

Allir velkomnir!

Kort og leiðsögn að Guðmundarlundi má finna á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs (hér).

 

Að þessari fræðslu lokinni verður þátttakendum boðið að sitja kvöldnámskeið um miðjan október. Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um upptöku trjáa og runna, gróðursetningar, jarðveg, áburð og annað sem stuðlar að betri þroska gróðurs.

Námskeiðið er öllum að kostnaðarlausu.

Sveppafræðsla fyrir byrjendur í Fossselsskógi

Með Skógargöngur

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir leiðbeinir um matsveppi í Fossselsskógi, þriðjudagskvöldið 4. september, kl 18:00, fólk hafi með sér hnífa og ílát.

Í lokin verða steiktir rjómalagaðar sveppir á pönnu og bornir fram á brauðsneiðum.

Fossselsskógur er sunnan við bæinn Vað, austan megin við Skjálfandafljót, á leið frá Kinn yfir í Aðaldal.  Fólksbílafæri.  Bílum lagt syðst í skóginum við áningarborð neðan Kvennabrekku.

Allir velkomnir.

Skógræktarfélag Suður Þingeyinga.

 

Tré ársins 2012 útnefnt

Með Skógargöngur

Tré ársins 2012 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn að Brekkugötu 8 á Akureyri sunnudaginn 2. september. Tré ársins að þessu sinni er gráösp (Populus x canescens), en gráösp er blendingur milli blæaspar (P. tremula)  og silfuraspar (P. alba). Gráösp er vinsælt garð- og borgartré víða í Evrópu, V-Asíu og S- Rússlandi en einungis örfáar fullorðnar gráaspir  er að finna hér á landi.  Gráöspin að Brekkugötu 8 ber sterkari einkenni silfuraspar hvað blaðform og lit laufblaða varðar. Hún hefur myndað tígulegan stofn og formfagra krónu. Börkur á stofni trésins er afar hrjúfur og myndar þverhandarþykkar hrukkur sem gefa trénu ævintýralegan blæ.

Hófst athöfnin á því að Sigrún Stefánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, bauð gesti velkomna.  Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flutti ávarp og flutti fulltrúum eigenda Brekkugötu 8 viðurkenningarskjal. Einnig flutti Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar ávarp og Hrefna Hjálmarsdóttir, sem starfaði lengi í húsinu, sagði frá því. Tréð var svo formlega mælt. Reyndist það mest 13,55 m á hæð, en ummál stofns  í 10 cm hæð frá jörðu var 2,68 m og í brjósthæð 2,3 m. Inn á milli atriða söng svo Kvintettinn Gráösp nokkur lög um land og skóga.

trearsins1

Gráöspin setur mikinn svip á umhverfið (Mynd:EG).

trearsins2

Börkurinn á trénu setur sterkan svip á tréð (Mynd:EG).

Skógardagur hjá Skógræktarfélaginu Mörk

Með Skógargöngur

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn á Teygingalæk á Brunasandi laugardaginn 18. ágúst kl. 13:30.

Við skoðum ræktun skógarbændanna Sveinbjargar og Ólafs, grillum og eigum góða stund saman.

Takið daginn frá – allir áhugasamir velkomnir.

Skógræktarfélagið Mörk,
Kirkjubæjarklaustri.

Fræðsluganga um Vatnsendahlíð

Með Skógargöngur

Fræðsluganga um Vatnsendahlíð

Rétt við bæjardyrnar, gróður og jarðfræði

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðslugöngu um Vatnsendahlíð

og nágrenni þriðjudagskvöldið 24. júlí, undir leiðsögn

Hafdísar Hönnu Ægisdóttur plöntuvistfræðings

og Hreggviðar Norðdahl jarðfræðings.

Gengið verður um svæðið og hugað að gróðurfari

og jarðfræði.

Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér plöntuhandbók ef

þeir eiga eina slíka.

Lagt verður í gönguna frá aðalinngangi Guðmundarlundar

klukkan19:30.

Fræðslugöngunni lýkur kl. 21:30.

Allir velkomnir

Garðaganga í Rósagarðinn í Höfðaskógi

Með Skógargöngur

Garðyrkjufélag Íslands verður með garðagöngu í Rósagarðinn í Höfðaskógi miðvikudaginn 11. júlí og hefst hún kl. 18:00. Mæting er við Gróðrarstöðina Þöll, við Kaldárselsveg.

Rósagarðurinn í Höfðaskógi er samstarfsverkefni Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og þar eru fyrst og fremst ræktaðrar harðgerðar runnarósir. Leiðsögumenn eru þeir Vilhjálmur Lúðvíksson og Kristleifur Guðbjörnsson.

Gróðrarstöðin Þöll mun verða með til sölu nokkur rósayrki sem Jóhann Pálsson, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, hefur þróað.

Sjá nánar á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands (hér).

ros
(Mynd: RF).

Fræðsluganga í Kópavogsdal – Vin í alfaraleið, gróður og saga

Með Skógargöngur

Í fræðslugöngu Skógræktarfélags Kópavogs og Skógræktarfélags Íslands um Selhóla í Lækjarbotnum þann 12. júní síðastliðinn slógu þeir Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs og Gísli Bragason jarðfræðingur rækilega í gegn sem leiðsögumenn. Þeir félagar fjölluðu þá gróður, jarðfræði og sögu staðarins.

Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri ætlar enn á ný að ausa úr viskubrunni sínum á þriðjudagskvöldið 10. júlí í fræðslugöngu um Kópavogsdal.  Leitast verður við að kynna fólki þann gróður sem fyrir augu ber á þessu vinsæla útivistarsvæði og sagt verður frá sögu svæðisins.

Lagt verður í gönguna frá bílastæðinu við Digraneskirkju kl. 19:30.

Skógræktarfélag Íslands og skátar undirrita samning um Úlfljótsvatn

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta og Skátasamband Reykjavíkur undirrituðu í dag eignaskipta, afnota- og réttindasamning um jörðina Úlfljótsvatn, sem Skógræktarfélagið og skátar keyptu af Orkuveitu Reykjavíkur á síðast liðnu ári.

Í samningnum er kveðið nánar um skiptingu jarðarinnar og fasteigna á henni á milli þessara aðila, auk þess sem samningurinn leggur drög að sameiginlegri framtíðarsýn eigendanna.

Samninginn undirrituðu Ólafur J. Proppé fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta, Arthur Pétursson fyrir hönd Skátasambands Reykjavíkur og Magnús Gunnarsson og Brynjólfur Jónsson fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands.

 

undirskrift-skatar

Brynjólfur Jónsson, Arthur Pétursson, Ólafur J. Proppé og Magnús Gunnarsson (Mynd: RF).