Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands verður lokuð eftir hádegi miðvikudaginn 9. ágúst.
Garðyrkjuskólinn á Reykjum er með tvö námskeið nú í september, sem áhugaverð eru fyrir ræktunarfólk.
Annars vegar er um námskeið að ræða er heitir Áhættumat trjáa. Með hlýnandi veðri og hækkandi trjágróðri í þéttbýli er orðið mikilvægt að geta lagt mat á ástand trjáa og möguleg hættumerki. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt.
Hins vegar er námskeið er heitir Í upphafi skyldi endinn skoða og er í því farið yfir helstu þætti sem mikilvægt er að horfa til frá byrjun þegar farið er í landgræðslu og/eða skógrækt, til að tryggja árangur til framtíðar.
Grænni skógar I er námskeiðaröð sem ætluð er skógræktendum og öðrum skógareigendum sem vilja auka við þekkingu sína og árangur í skógrækt.
Námskeiðaröðin tekur fimm annir og þátttakendur taka alls 15 námskeið á þeim tíma eða að jafnaði 3 á hverri önn. Fyrsta námskeiðið verður haldið í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi dagana 22. og 23. september 2023.
Hvert námskeið er skipulagt þannig að kennt er á föstudegi kl. 16-19 og laugardag kl. 9-16. Námskeiðin eru byggð upp sem blanda af fyrirlestrum, verklegum æfingum og vettvangs- heimsóknum. Að auki verður farið í námsferð innanlands og verður hún kynnt sérstaklega.
Nánari upplýsingar veitir Björgvin Örn Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, í síma 616 0828 eða með tölvupósti á netfangið boe@fsu.is.
Í tengslum við Líf í lundi er boðað til ljósmyndasamkeppni. Taktu þín bestu mynd af atburðum á Líf í lundi eða bara í morgungöngunni í skóginum og merktu (taggaðu) Líf í lundi á Instagram eða Facebook með myllumerkinu #lifilundi.
Senda má inn myndir teknar dagana 23.-26. Júní. Dómnefnd mun velja bestu myndirnar og vera í sambandi við ljósmyndara. Myndirnar verða svo settar inn á Facebook-síðu Lífs í lundi og opnað fyrir atkvæðagreiðslu. Sú mynd er hlýtur flest „Like“ eða viðbrögð vinnur. Verðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin.
Spennandi verðlaun í boði!
Nánari upplýsingar um viðburði Líf í lundi má finna á Skógargátt vefsíðunni og Facebook síðu Líf í lundi.
Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins í kringum Jónsmessuna og verður hann nú haldinn í sjötta sinn. Er markmið hans að fá fólk til að heimsækja skóga landsins, stunda hreyfing, samveru og upplifa skóga og náttúru. Flestir viðburðir eru á laugardeginum 24. júní, en viðburðir eru í gangi frá föstudegi til mánudags.
Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á Skógargátt vefsíðunni og Facebook síðu Líf í lundi.
Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2023 er komið út. Að venju er að finna í ritinu greinar um hinar margvíslegu hliðar skóga og skógræktar. Að þessu sinni eru í ritinu meðal annars greinar um aldarfriðun Þórsmerkur- og Goðalandsskóga, evrópuask, Hekluskóga, könnun á gæðum viðar, nýja bók um skógartengd samskipti Noregs og Íslands, skógarreit í Úlfarsárdal og birki hér á landi.
Kápu ritsins prýðir myndin „Innri friður“ eftir Ernu Kristjánsdóttur.
Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt.
Áskriftartilboð – nýir áskrifendur fá tvö hefti að gjöf! Sjá nánar: https://www.skog.is/skograektarritid/
Vegna útivinnu og sumarleyfa verður gloppótt viðvera á skrifstofu félagsins dagana 7. – 9. júní. Vinsamlegast hringið á undan ykkur. Símanúmer starfsmanna má finna hér á heimasíðunni.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2023 verður haldinn á Patreksfirði dagana 1.-3. september 2023 og eru Skógræktarfélög Patreksfjarðar, Bíldudals og Tálknafjarðar gestgjafar fundarins.
Fundargögn:
Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2022-2023 (pdf)
Tillögur að ályktunum – úr nefndum (pdf)
Kynning – tillaga að lagabreytingu (pdf)
Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)
Reikningar:
Skógræktarfélag Íslands ((pdf)
Handverkshúsið býður til tálgudags fjölskyldunnar 27. maí. Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar sem féll frá allt of snemma nú í janúar, var forsprakki þessa framtaks og er því haldið áfram til að heiðra minningu hans. Upplagt tækifæri til börnin að fá að prófa tálgun undir öruggri leiðsögn.
Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á heimasíðu Handverkshússins – https://handverkshusid.is/talgudagur-fjolskyldunnar/
Á stjórnarfundi Skógræktarfélag Íslands þann 15. maí s.l. var m.a. fjallað um rangfærslur sem nýlega voru sendar sveitarfélögum um skógrækt. Af því tilefni telur Skógræktarfélag Íslands nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri.
Rétt er að geta þess að sveitarfélög víðsvegar um land eru aðal samstarfsaðili skógræktarfélaga.
Ísland er ekki viði vaxið land. Það er talið eitt fátækasta land Evrópu af skógum. Rannsóknir hafa sýnt að miðað við óbreyttar gróðursetningar, sem nú eru um 6 milljón plantna á ári á um 2.500 hektara lands, muni ræktaðir skógar aukast úr 0,47% í 0,79% af flatarmáli ræktanlegs lands.
Ef dæmið gengur upp og fjármunir fást í tvöföldun þessarar ræktunar, þ.e.a.s. að gróðursettar verði um 12 milljón plöntur á ári sem muni þekja um 5000 ha árlega, þá verðum við í mesta lagi komin í um 1,19% skógarþekju um 2050.
Því miður er ástæða til að óttast að því markmiði verði ekki náð þar sem plöntuframleiðsla í landinu nægir ekki til framleiðslu 12 milljón platna á ári. En jafnvel þótt háleitustu markmið skógræktarfólks næðu fram að ganga yrði einungis búið að ganga á 2% tiltæks lands undir 400 m hæð með ræktuðum trjátegundum af erlendum uppruna árið 2050.
Þessi niðurstaða sýnir að upphrópanir andstæðinga skógræktar byggjast á fölskum forsendum, sem virðast til þess ætlaðar að villa fólki sýn og skapa úlfúð og hnýta í það fólk sem fæst við skógrækt – skógræktarfélög, skógarbændur, sveitarfélög og stofnanir sem fást við skógrækt af ýmsum toga til að bæta mannlíf og náttúru á Íslandi. Ísland þarfnast meira skóglendis, og að hlúð verði betur að þeim trjám sem fyrir eru í landinu. Áframhaldandi skógrækt er einnig ein forsenda þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar um kolefnisbindingu andrúmsloftsins.
Stjórn Skógræktarfélags Íslands varar við neikvæðum málflutningi andstæðinga skógræktar og lýsir sig reiðubúna til að veita upplýsingar og halda áfram að vinna með stjórnvöldum og sveitarfélögum landsins að því að klæða landið, gera það byggilegra og náttúruvænna með skipulagðri skógrækt. Þannig eiga náttúruleg fjölbreytni, gróska og grænir skógar á viðeigandi stöðum eftir að auka gildi Íslands fyrir íbúa þess og gestkomandi ferðamenn.
Stjórn Skógræktarfélags Íslands
Grænn og fagur skógur að Leyningshólum í Eyjafirði.
Nýlegar athugasemdir