Skip to main content
All Posts By

ragnhildur

Skógræktarfélag Íslands og Nettó halda áfram að tryggja aðgengi að skógum landsins

Með Fréttir

Nettó og Skógræktarfélag Íslands hafa endurnýjað samstarfssamning um verkefnið Opinn skógur til næstu tveggja ára. Samningurinn lýtur að margvíslegum stuðningi við skógrækt og samvinnu vegna uppbyggingar á skógræktarsvæðum. Nettó hefur verið stuðningsaðili að Opnum skógum um árabil enda fellur verkefnið vel að umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Í dag má finna sautján skógarsvæði víðs vegar um landið undir merkjum Opins skógar. Komið hefur verið upp útivistaraðstöðu, skógarstígum, merkingum og leiðbeiningum á svæðunum.

„Skógarnir ættu að vera auðþekkjanlegir landsmönnum á ferð þeirra um landið en við þá alla blakta bláir Nettófánar,“ segir Helga Dís Jakobsdóttir, markaðstjóri Nettó. „Skógræktarfélagið er mikilvæg stoð í náttúru- og umhverfisvernd hér á landi og erum við því gríðarlega ánægð með þetta samstarf og að geta haldið áfram að þróa og bæta aðgengi að skógarsvæðum svo fleiri geta notið þeirra miklu gæða sem felast í íslenskum skógum. Nú þegar vor er í lofti vonum við að sem flestir landsmenn geri sér ferð í Nettó skóga en skógardvöl og samvera er frábær heilsubót.“

Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, segir „Samstarf okkar við Nettó er liður í því að tryggja áframhaldandi vinnu við að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir um allt Ísland. Við sjáum mikla aukningu í notkun skóga, en undanfarin ár hafa vinsældir íþrótta- og heilsuviðburða í skógum landsins aukist mikið og gildir þá einu hvort um er að ræða keppnir eða viðburði ætlaða almenningi. Slíkt hefur mikið gildi fyrir lýðheilsu og skógarmenningu sem við erum stolt að halda uppi.“

Nánar um samstarfið
Meginmarkmið samstarfsins er að bæta aðstöðu og auka aðgengi að opnum skógræktarsvæðum í alfaraleið og miðla fræðslu um lífríki, náttúru og sögu svo almenningur geti nýtt sér skógana til áningar, útivistar og heilsubótar. Með samningnum er rekstur verkefnisins tryggður næstu tvö árin auk þess sem unnið verður að kynningu á því.

Helga Dís Jakobsdóttir, markaðsstjóri Nettó og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við undirritun samningsins.

 

Til hamingju Vigdís!

Með Fréttir

Vigdís Finnbogadóttir fagnar 94 ára afmæli sínu í dag. Skógræktarfélag Íslands óskar henni hjartanlega til hamingju með afmælið!

Vigdís hefur verið ötull talsmaður skógræktar, landgræðslu og umhverfismála hérlendis, bæði í forsetatíð hennar og síðar. Hún var gerður heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands árið 1984 fyrir framlag sitt til skógræktar og hefur verið tíður gestur á viðburðum félagsins í gegnum árin, ávallt tilbúin til þeirra verka sem félagið hefur óskað eftir.

Þess má til gamans geta að Vigdís deilir afmælisári með Skógræktarfélagi Íslands, en það var stofnað árið 1930.

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga 2024

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Rangæinga 2024 verður haldinn þriðjudaginn 9. apríl n.k í Safnaðarheimilinu á Hellu Dynskálum 8.  Fundurinn hefst kl. 19.00.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
2. Önnur mál
3. Kjartan Benediktsson verður með fræðsluerindi í máli og myndum um belgjurtir.

Veitingar í boði félagsins.  Fundurinn er öllum opinn.

 

Fulltrúafundur 2024

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna var haldinn í Frægarði í Gunnarsholti laugardaginn 6. apríl 2024.

Dagskrá:

Þema: Að útbúa fjölbreyttan skóg 

10:00 –10:10 Setning
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands 

10:10 – 10:30 Ávarp
Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar 

10:30 – 11:00 Stjórnun og hvatning sjálfboðaliða. Hvað segja fræðin?
Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor, félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands 

11:00 – 11:30 Skógakrydd – aukin tegundafjölbreytni í útivistarskógum
Steinar Björgvinsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og Gróðrarstöðinni Þöll 

11:30 – 12:00 Blómstrandi skógarbotnar
Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur 

12:00 – 13:00 Hádegismatur 

Þema: Landgræðsluskógar 

13: 00 – 13:30 Landgræðsluskógar: fortíð, nútíð og framtíð
Jón Ásgeir Jónsson og Þórveig Jóhannsdóttir, Skógræktarfélagi Íslands 

13:30 – 14:30 Umræður um Landgræðsluskóga og skógræktarfélögin 

Skipt í hópa (borð). Umræðuefni: 

  • Plöntuúrval í Landgræðsluskógum 
  • Umhirða Landgræðsluskóga – þarfir og áskoranir? 
  • Innviðauppbygging – þarfir, óskir og áskoranir? 
  • Kynning skóganna – hversu vel þekkir almenningur skógana okkar? 
  • Starfsemi félaganna – helstu áskoranir 

14:30 – 15:00 Almennar umræður
Tækifæri fyrir félögin til að ræða um/koma á framfæri einhverju sem brennur á þeim 

15:00 – 16:00 Gengið um Gunnarsholt
Ágúst Sigurðsson leiðir skoðunarferð um Gunnarsholt og nágrenni 

 

Hvatningarverðlaun skógræktar 2024 afhent

Með Fréttir

Hvatningarverðlaun skógræktar 2024 voru afhent við hátíðlega athöfn á Fagráðstefnu skógræktar, sem haldin er á Akureyri dagana 20.-21. mars og er þetta í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent.

Kallað var eftir tilnefningum að verðlaununum í febrúar. Alls bárust tilnefningar að 24 aðilum og valdi dómnefnd úr þrjá aðila til kosninga á vef. Niðurstaða úr því lá fyrir nú í mars  og var það Sigurður Arnarson sem fékk flest atkvæði. Fékk Sigurður til eignar forláta viðarskál, sem verðlaunagrip. Til gamans má geta að skálin er gerð úr grisjunarviði af Tré ársins 2006, sem er gráösp í Hafnarfirði.

Sigurður hefur skrifað fræðandi og áhugaverðar greinar um trjátegundir, skóga og skógrækt, sem birtar hafa verið á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga og víðar. Með því hefur hann stuðlað að aukinni þekkingu fyrir bæði almenning og fólk innan skógræktargeirans. Einnig er hann höfundur bókar um belgjurtir og hefur verið virkur í umræðu um skógartengd málefni.