Skip to main content
Flokkur

Fundir og ráðstefnur

Ráðstefna: Landsýn, vísindaþing landbúnaðarins

Með Fundir og ráðstefnur

Skógrækt ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Landgræðsla ríkisins, Matvælarannsóknir Íslands og Veiðimálastofnun standa að ráðstefnunni Landsýn í byrjun mars. Enn er hægt skila inn titlum að erindum sem falla undir efni þessarar ráðstefnu, en hún skiptist í þrjá málstofur: 1) Áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi, lífríki og ræktun. Hvað hefur gerst og hvað getur gerst? 2) Ástand og nýting afrétta. 3) Sjálfbær ferðaþjónusta og heimaframleiðsla matvæla.

Frestur til að skila inn titlum er til 25. janúar. Sjá nánar á heimasíðu Skógræktar ríkisins (hér).

Málþing um gróðurelda

Með Fundir og ráðstefnur

Málþing um gróðurelda verður haldið fimmtudaginn 17. janúar að Hjálmakletti í Borgarbyggð.

Á málþinginu verður lögð áhersla á að ræða og miðla upplýsingum leiðir til að auka viðbúnaðargetu slökkviliða með samstarfi sveitarfélaga og stofnana og skilgreina ábyrgð sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.

Fjallað verður um reynsluna af baráttu við gróðurelda, lagt mat á möguleika slökkviliða til að ráða niðurlögum þeirra og rætt um hvaða úrbóta er þörf hvað varðar mönnun slökkviliða, búnað þeirra og fjárhagslega áhættu sveitarfélaga af völdum gróðurelda.

Einnig verður fjallað um aðgerðir til forvarna og áhrif gróðurelda á náttúruna.


Nánar má kynna sér málþingið á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga (hér).

Jólafundur Skógræktarfélags Kópavogs

Með Fundir og ráðstefnur

Skógræktarfélag Kópavogs heldur jólafund sinn fimmudaginn 6. desember 2012 kl. 20:00 í Gullsmára 13, félagsheimili aldraðra.

Dagskrá:
1. Formaður segir frá því helsta í starfsemi Skógræktarfélagsins 2012
2. Steinar Björgvinsson garðyrkju-og skógræktarfræðingur og blómaskreytir flytur erindi: “Hentar efniviður úr íslenskum skógum til jólaskreytinga“.
3. Happdrætti – 10 jólatré frá Fossá í vinning
4. Önnur mál

Veitingar í boði Skógræktarfélagsins. Allir velkomnir.

Sjá á heimasíðu félagsins – www.skogkop.net

Þemadagur skógræktargeirans: Fræöflun og kynbætur

Með Fundir og ráðstefnur

Þemadagur NordGen Skog með yfirskriftinni „Fræöflun og kynbætur – staðan í dag og framtíðin“ verður haldinn á Hótel Örk, Hveragerði 6. nóvember n.k. frá kl. 10:00 – 17:00.

Fundarstjóri þemadagsins verður Jón Geir Pétursson, sérfræðingur á skrifstofu landgæða, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þeim þátttakendum sem skrá sig fyrir 31. okt. verður boðið fundarkaffi og hádegisverður án endurgjalds. Þeir sem skrá sig eftir 31. október þurfa að greiða 3.000 kr. í þátttökugjald. Þátttakendur eru vinsamlegast beðnir að skrá sig hjá Úlfi Óskarssyni á netfangið ulfur@lbhi.is fyrir 31. október.

Þátttakendur bóka sjálfir og greiða gistingu á Hótel Örk í síma 483-4700. Eins manns herbergi með morgunmat kostar 9.900 kr.  en tveggja manna herbergi með morgunmat 13.900 kr. Kvöldverður kostar 5.900 kr.

Í kjölfar fagráðstefnu um kvæmi og klóna á Húsavík 2012 liggur beint við að koma af stað umræðu um fræöflun fyrir íslenska skógrækt. Hvernig gengur okkur að afla þess fræs sem okkur vantar? Eigum við að fara út í meiri kynbætur? Hver er staðan í þessum málum í dag? Hverjar eru úrlausnirnar? Hver verða áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi? Hvernig getum við búið okkur undir breytta tíma hvað varðar vaxtarskilyrði í framtíðinni? Hver á að leiða og bera ábyrgð á Íslenska fræbankanum?

Dagskrá þemadags og nánari upplýsingar má lesa á heimasíðu Skógræktar ríkisins (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2012 settur

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2012 var settur í gær, föstudaginn 24. ágúst, en að þessu sinni er hann haldinn á Blönduósi, í boði Skógræktarfélags A-Húnvetninga.

Hófst fundurinn með ávörpum, skýrslu stjórnar og kynningu reikninga Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs. Eftir hádegismat var unnið að tillögum að ályktunum í nefndum en að því loknu var haldið í kynnisferð á vegum Skógræktarfélags A-Húnvetninga um skógarreiti í nágrenninu.

Fundur hélt svo áfram í dag, en fyrir hádegi eru margvísleg áhugaverð fræðsluerindi. Eftir hádegið er svo komið að annari kynnisferð. Fundi lýkur svo um hádegi á morgun.

Fylgjast má með fundinum á Facebook-síðu Skógræktarfélags Íslands (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2012

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands verður haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi helgina 24.-26. ágúst. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir um Blönduósbæ og nærsveitir þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast því sem Austur-Húnvetningar eru að gera á sviði trjá- og skógræktar. Hápunktur fundarins er hátíðarkvöldverður í Félagsheimilinu á laugardagskvöld þar sem valinkunnir menn verða heiðraðir fyrir framlag sitt til skógræktar og dans stiginn fram á nótt.

Mikill sóknarhugur og bjartsýni einkennir starf Skógræktarfélags Íslands um þessar mundir enda hefur margt gerst á því ári sem liðið er frá síðasta aðalfundi. Meðal annars festi félagið kaup á jörðinni Úlfljótsvatni í samstarfi við skátahreyfinguna og stóð fyrir vel heppnuðum Jólatrjáamarkaði við Umferðarmiðstöðina. Að auki sinnti félagið hefðbundnum verkefnum svo sem Landgræðsluskógum, Yrkjugróðursetningum grunnskólabarna og atvinnuátaki í samstarfi við skógræktarfélög og sveitarfélög um land allt.

Dagskrá aðalfundar, starfsskýrslur Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs og aðrar gagnlegar upplýsingar má nálgast á vefsvæði Skógræktarfélags Íslands (hér).

 

Hægt verður að fylgjast með gangi fundarins á Facebook-síðu Skógræktarfélagsins (hér).

Málþing og vinnustofa um lýðheilsu, útivist og náttúruvernd

Með Fundir og ráðstefnur

Embætti landlæknis ásamt Umhverfisstofnun  stendur að málþingi undir yfirskriftinni Er hægt að auka útiveru Íslendinga? Málþingið fer fram miðvikudaginn 16. maí á Grand Hótel í Háteigi A, kl. 9:00 – 16:00. Því er ætlað að skapa umræðuvettvang fyrir fólk sem starfar innan heilbrigðiskerfisins, á sviði sveitarstjórna, umhverfis- og skipulagsmála og í útivistargeiranum. Skráning er til og með 14. maí, á netfanginu kristjanthor (hjá) landlaeknir.is.

Nánari upplýsingar á heimasíðu landlæknis (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar verður haldinn í Safnaðarheimili Lágafellssóknar mánudaginn 23. apríl, kl. 20:00.

Dagskrá:

1. Almenn aðalfundarstörf

2. Önnur mál

3. Fræðsluerindi: Hverjir eiga skóga Íslands? Fyrirlesari er Björn Traustason

 

Félagsmenn eru hvattir til að mæta.

 

Kaffiveitingar verða á fundinum.

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Markar

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur skógræktarfélagsins Markar verður haldinn á Hótel Kirkjubæjarklaustri laugardaginn 21. apríl kl. 13:30

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
2. Önnur mál

Að fundarstörfum loknum mun Kristinn Þorsteinsson garðyrkjufræðingur flytja erindi um ræktun aldintrjáa og berjarunna.

Félagar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta á fundinn og hlýða á fróðlegt erindi.

Kaffiveitingar í boði félagsins.

Skógræktarfélagið Mörk,
Kirkjubæjarklaustri.

Fuglaverndarfélag Íslands: Garðfuglar

Með Fundir og ráðstefnur

Fuglaverndarfélag Íslands stendur fyrir  fyrirlestri um garðfugla  17. apríl i húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19, kl. 20:30.

Garðar eru mikilvæg búsvæði fyrir suma íslenska fugla, þó svo að vægi þeirra sé líklega ekki eins mikið og í sumum nágrannalöndunum.  Félagar Fuglaverndar hafa um árabil fylgst með fuglalífi í görðum víðsvegar um landið til þess að athuga hvaða fuglar nýti sér helst íslenska garða yfir vetrartímann. Garðfuglar kallast þeir fuglar sem sjást í görðum og nýta sér þá til lífsviðurværis. Garður er svæði við hús eða híbýli, allt frá grasflöt eða matjurtagarði til gamalgróins trjágarðs með margar tegundir trjáa og runna.

Garðfuglar geta verið fuglar sem gera garðinn að óðali sínu yfir sumartímann, byggja sér hreiður í trjám eða undir þakskeggi og ala þar upp unga sína.  Einnig geta þetta verið fuglar sem koma í garðinn til að afla sér fæðu eða leita sér skjóls á öllum árstímum. Þetta geta verið íslenskir staðfuglar eða erlendir vetrargestir eða flækingsfuglar.
 
Könnun á garðfuglum á Íslandi hófst árið 1994 með Garðfuglakönnun Fuglaverndar. Þar skrá þátttakendur garðfugla yfir veturinn frá byrjun nóvember  til aprílloka. Garðfuglahelgi er hins vegar atburður þar sem þátttakendur fylgjast með fuglalífi í garði hluta úr degi, yfirleitt í eina klst. yfirleitt síðustu helgi í janúar ár hvert.

Í fyrirlestrinum munu Ólafur Einarsson og Örn Óskarsson framhaldsskólakennarar og líffræðingar fjalla um helstu niðurstöður úr Garðfuglakönnunum og Garðfuglahelgi og kynna helstu tegundir garðfugla í íslenskum görðum.

Fuglavernd lofar því að fyrirlestrinum fylgi fallegar garðfuglamyndir.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 en gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið hússins. Fundurinn hefst klukkan 20:30 og er öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra.