Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Opnunartímar hjá Skógræktarfélagi Íslands yfir jólin

Með Ýmislegt

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands verður lokuð eftir hádegi á Þorláksmessu, 23. desember.  Viðvera starfsmanna á skrifstofunni verður stopul á milli jóla og nýárs, þannig að mælt er með því að fólk hringi á undan sér í síma 551-8150.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Jólaskógurinn í Brynjudal lokar að sinni

Með Ýmislegt

Nú um helgina komu síðustu hópar þessa árs í heimsókn í jólaskóginn í Brynjudal og sáu veðurguðirnir um að það var smá hvítur litur á jörðinni þessa síðustu helgi.  Fengu gestir góðan göngutúr um skóginn í leit að rétta trén og yljandi kakó-sopa að leit lokinni. Einnig sást til nokkurra rauðklæddra og hvítskeggjaðra manna á ferð í skóginum…

Skógræktarfélag Íslands þakkar öllum þeim sem sóttu sér tré í jólaskóginn í Brynjudal fyrir komuna og vonandi sjáum við sem flesta aftur að ári, á ári alþjóðlegur ári skóga!

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá „vertíð“ þessa árs í Brynjudal.

brynjulok-1
Búin að finna rétta tréð (Mynd: RF).

brynjulok-2
Börnin fá hollar og góðar mandarínur frá þessum jólasvein (Mynd: RF).

brynjulok-3
Jólatrénu pakkað í net (Mynd: RF).

brynjulok-4
Það er alltaf gaman að syngja og dansa með jólasveinunum (Mynd: RF).

brynjulok-5
Varðeldurinn er alltaf vinsæll (Mynd: RF).

brynjulok-6
Jólasveinninn heldur heim á leið (Mynd: RF).

Tillaga að breytingu á náttúruverndarlögum: Hvað með skógrækt?

Með Ýmislegt

Á vefsíðu umhverfisráðuneytisins eru nú kynntar tillögur nefndar að breytingum á náttúruverndarlögum (sjá hér). Jafnframt er öllum boðið að senda inn athugasemdir við tillögurnar til ráðuneytisins fyrir 7 janúar n.k. Í þessum tillögum eru atriði sem haft geta veruleg áhrif á skógrækt, landgræðslu og landbúnað – sjá heimasíðu Skógræktar ríkisins (hér).

Er allt skógræktarfólk hvatt til að lesa yfir drögin og senda inn sínar athugasemdir.

Grænni skógar fá Starfsmenntaverðlaunin 2010

Með Ýmislegt

Starfsmenntaverðlaunin voru veitt 8. desember, en þau eru veitt þeim aðilum sem vinna að framúrskarandi verkefnum í fræðslumálum og starfsmenntun.

Í flokki skóla og fræðslustofnana fékk Landbúnaðarháskólinn/Endurmenntun LbhÍ verðlaunin fyrir verkefnið Grænni skógar, sem er skógræktarnám ætlað fróðleiksfúsum skógarbændum og áhugasömum skógræktendum sem vilja auka þekkingu sína og ná betri árangri í skógrækt.

Auk Grænni skóga fengu Reykjavíkurborg, Starfsafl og Kaffitár verðlaun.

Skógræktarfélag  Íslands óskar Grænni skógum hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.

Minningarsjóður um Hjálmar R. Bárðarson og konu hans Else stofnaður

Með Ýmislegt

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Landgræðslusjóður og Landgræðsla ríkisins, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, hafa stofnað minningarsjóð um Hjálmar og  eiginkonu hans, Else S. Bárðarson.

Í erfðaskránni komu fram óskir Hjálmars um ráðstöfun á arfinum og óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og þar segir.

Sjóðurinn fær í stofnfé 20 milljónir króna frá hvorum aðila og á að starfa í 10 ár.  Er markmið hans að styrkja rannsóknaverkefni í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Ný bók: Lífssaga Margrétar í Dalsmynni

Með Ýmislegt

Út er komin bókin Með létt skap og liðugan talanda – lífssaga Margrétar í Dalsmynni, eftir Önnu Kristine Magnúsdóttur.  Margréti Guðjónsdóttir í Dalsmynni þarf vart að kynna fyrir skógræktarfólki, en hún hefur verið formaður Skógræktarfélags Heiðsynninga til margra ára og verið virkur þátttakandi í ýmsum samkomum skógræktarfélaga, sérstaklega aðalfunda Skógræktarfélags Íslands.

Auk þess að vera landsfræg skógræktarkona er Margrét hagyrðingur og ellefu barna móðir.  Auk sinna eigin barna tók Margrét, ásamt Guðmundi manni sínum, mörg börn í sveit á hverju sumri og í bókinni segja mörg þeirra frá ævintýralegri dvöl í Dalsmynni. Bókin er full af fróðleik og skemmtun, enda Margrét ekkert að skafa af hlutunum.

Nánar má kynna sér bókina á heimasíðu Bókaútgáfunnar Hóla (hér).

 

margretarbok

Fundur um náttúruvernd og ferðaþjónustu

Með Ýmislegt

Umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið efna til fundar um náttúruvernd og ferðaþjónustu á Grand Hótel, fimmtudaginn 18. nóvember kl. 8:30-10:00. Á fundinum verður fjallað um nýlega úttekt Umhverfisstofnunar á álagi á friðlýstum svæðum vegna ferðamanna, úrræði til umbóta, fjármögnun þeirra og leiðir til að tryggja að ferðaþjónusta og náttúruvernd fari saman.

Dagskrá:
• Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
 Ástand og umbætur á friðlýstum svæðum. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.
• Ferðamannastaðir á Íslandi – uppbygging til framtíðar. Elías Gíslason, forstöðumaður ferðamálasviðs Ferðamálastofu.
• Uppbygging ferðamannastaða. Fjármögnun, ábyrgð, sjálfbærni. Einar Torfi Finnsson, framleiðslustjóri hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum, handhafa umhverfisverðlauna Ferðamálastofu.
• Rekstur og umsjá þjóðgarða og friðlýstra svæða. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
• Ávarp Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.

Fuglavernd: Fuglaskoðun í Fossvogskirkjugarði

Með Ýmislegt

Fuglavernd stendur fyrir fuglaskoðun í Fossvogskirkjugarði sunnudaginn 31. október. Lagt verður af stað frá bílastæðinu við Fossvogskirkju kl. 14. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru mun leiða gönguna. Veðurspáin er ágæt og mikið fuglalíf í garðinum um þessar mundir.

Upplagt að kíkja á haustliti og ber á trjánum í leiðinni!

Munið eftir að taka sjónaukann með.

Allir velkomnir.

Jólaskógurinn í Brynjudal – byrjað að bóka!

Með Ýmislegt

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 4.-5., 11.-12. og 18.-19. desember, auk  sunnudagsins 28. nóvember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær.  Nú þegar eru nokkrir tímar fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands  í síma 551-8150 eða á netfangið skog (hjá) skog.is.

brynjudalur-boka