Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Erindreki Skógræktarfélags Íslands á ferðinni í sumar

Með Ýmislegt

Í sumar mun erindreki frá Skógræktarfélagi Íslands (SÍ) verða á ferðinni og heimsækja skógræktarfélög víða um land til að efla tengsl SÍ við félögin, kynna sér helstu viðfangsefni og vandamál þeirra og veita þeim margvíslega aðstoð og hvatningu.

Erindrekinn sem um ræðir er ungur maður að nafni Jón Ásgeir Jónsson.  Hann er nemandi í líffræði við Háskóla Íslands og stefnir á skógræktarnám í framhaldinu. Jón Ásgeir  hefur verið „sumarstrákur“ hjá félaginu undanfarin tvö ár (reyndar teygst yfir í „hauststrákur“ líka) og fengist við hin ýmsu störf innan félagsins á þeim tíma, þannig að hann hefur kynnst starfsemi þess vel. Þess má geta að hann er einn aðal hvatamaður að stofnun Gróðurvina Háskóla Íslands, en markmið þess félagsskapar er að auka gróður á vel völdum stöðum á háskólasvæðinu og hafa fyrstu trén þegar verið sett niður við Öskju.

jaj
Jón Ásgeir við vinnu í jólaskógi Skógræktarfélags Íslands í Brynjudal (Mynd: EG).

Gróðursetning Grænu bylgjunnar

Með Ýmislegt

Föstudaginn 21. maí komu börn frá grunnskólum á öllu höfuðborgarsvæðinu saman innan síns sveitarfélags til að gróðursetja tré undir hatti Grænu bylgjunnar (Green Wave), sem er alþjóðlegt verkefni sem Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika stendur fyrir í tengslum við dag líffræðilegs fjölbreytileika 22. maí. Þennan dag gróðursetja börn um víða veröld tré og mynda þannig Græna bylgju um allan heiminn, en viðburðinum er ætlað að vekja athygli á hugtakinu líffræðilegur fjölbreytileiki og leyfa skólabörnum að hafa áhrif, eitt tré og eitt skref í einu.

Skógræktarfélag Íslands, Yrkjusjóður – sjóður æskunnar til ræktunar landsins – og umhverfisráðuneytið efndu til þessa viðburðar á höfuðborgarsvæðinu, en þar var gróðursett innan hvers sveitarfélags – við Varmárskóla í Mosfellsbæ, við Gufunesbæ í Reykjavík, við Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, við skógarreit við Tungu (rétt hjá Lindaskóla) í Kópavogi, á Smalaholti í Garðabæ, á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og við Álftanesskóla á Álftanesi. Tókst þetta vel til, en gróðursetjarar voru á öllum aldri, frá fyrsta upp í tíunda bekk.

Fjölmennasti viðburðurinn var í Reykjavík, enda flestir skólar innan þess sveitarfélags, og mættu þangað Vigdís Finnbogadóttir, fyrir hönd Yrkjusjóðs og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Auk þess mættu nemar (fullorðnir) í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og tóku þátt í að gróðursetja með börnunum.

Gróðursetningin er komin á heimasíðu Grænu bylgjunnar (sjá hér).

gb-rvk-1

Vigdís Finnbogadóttir, ásamt nokkrum hressum krökkum við gróðursetningu við Gufunesbæ (Mynd: BJ).

gb-hf

Gróðursetning á Víðistaðatúni í Hafnarfirði (Mynd: RF).

gb-rvk-2

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra (3. f.v.) ásamt nemum í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna (Mynd: BJ).

gb-al

Hressir krakkar í 5. bekk í Álftanesskóla við trén tvö sem sett voru niður (Mynd: RF).

Græna bylgjan 21. maí

Með Ýmislegt

Græna bylgjan (Green Wave) er alþjóðlegt verkefni sem Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika stendur fyrir í tengslum við dag líffræðilegs fjölbreytileika 22. maí. Þann dag, eða næsta virka dag við 22. maí, sem í ár er föstudagurinn 21. maí, gróðursetja skólar um víða veröld tré, til að vekja athygli á hugtakinu líffræðilegur fjölbreytileiki og leyfa skólabörnum að hafa áhrif, eitt tré, eitt skref í einu.
 
Í tilefni árs líffræðilegs fjölbreytileika  ákváðu Umhverfisráðuneytið, Skógræktarfélag Íslands og Yrkjusjóður – sjóður æskunnar til ræktunar landsins, að efna til viðburða undir hatti þessa verkefnis hér á landi, í fyrsta skipti.  Var fulltrúum frá öllum skólum á höfuðborgarsvæðinu boðið að koma saman í sínu sveitarfélagi og setja niður trjáplöntur föstudaginn 21. maí, í tilefni þessa dags. Hafa nú þegar skólar í öllum sveitarfélögunum þegið boðið og verða því sjö gróðursetningarviðburðir – við Varmárskóla í Mosfellsbæ, við Gufunesbæ í Reykjavík, við Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, við skógarreit við Tungu (enda Galtalindar) í Kópavogi, á Smalaholti í Garðabæ, á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og við Álftanesskóla á Álftanesi.

Nánar má lesa um Grænu bylgjuna á heimasíðu hennar.

Fuglaverndarfélag Íslands: Fuglaskoðun og vormarkaður við Elliðavatn

Með Ýmislegt

Laugardaginn 8. maí verður fuglaskoðun við Elliðavatn í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum. Lagt verður af stað frá Elliðavatnsbæ stundvíslega kl. 14:00 og munu Edward Rickson og Jakob Sigurðsson leiða gönguna.

Einnig mun Fuglavernd taka þátt í vormarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur helgina 8.-9. apríl og verður t.d. garðfuglabæklingurinn þar til sölu.

Nánar á vefjum Fuglaverndar og Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Úttekt á skógum heimsins 2010

Með Ýmislegt

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, tekur nú reglulega saman skýrslur yfir ástand skóga í heiminum. Nýjasta skýrslan kemur út á þessu ári og er búið að birta skýrslur allra landa sem þátt tóku á skýrsla Íslands. Lokaskýrslan er enn í vinnslu og er von á henni í október.

skogaruttekt
(Mynd: RF).

Framandi og ágengar tegundir – raunveruleg, aðsteðjandi eða ímynduð ógn?

Með Ýmislegt

Fyrir stuttu lögðu Landgræðsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands fram skýrslu til umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem inniheldur tillögur um stöðvun útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils.  Nánar má kynna sér efni skýrslunnar á http://epaper.visir.is/media/201005310000/pdf_online/1_19.pdf
http://epaper.visir.is/media/201006050000/pdf_online/1_24.pdf
Sigmundur Guðbjarnarson Mbl 23.04.2010 (pdf)
Einar Sveinbjörnsson Mbl. 21.06.2010 (pdf)
Borgþór Magnússon Mbl. 24.06.2010 (pdf)
Heiðmörk í hættu Mbl. 28.06.2010 (pdf)
Skógræktarritinu (pdf) og á heimasíðu Nobanis-verkefnisins.

lupina
(Mynd: RF).

 

Til hamingju með alþjóðlega kvennadaginn!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands óskar skógræktarkonum og öðrum góðum konum til hamingju með alþjóðlega kvennadaginn!

8mars-4
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, ásamt aðstoðarstúlkum, gróðursetut reynitré í tilefni opnunar Opins skógar í Ásabrekku (Mynd: RF).

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar Tómasdóttur – tillögur óskast!

Með Ýmislegt

Í tilefni af 20 ára afmæli umhverfisráðuneytisins hefur Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ákveðið að heiðra minningu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti með því að afhenda náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar Tómasdóttur á degi umhverfisins sem haldinn er þann 25. apríl ár hvert. Viðurkenningin verður afhent einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar í fyrsta sinn á degi umhverfisins á þessu ári.

Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði á sig mikið erfiði í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.

Hægt er að senda umhverfisráðuneytinu tillögur um einstakling eða einstaklinga sem vegna verka sinna og athafna, eru þess verðugir að hljóta viðurkenninguna. Tillögurnar þurfa að berast umhverfisráðuneytinu eigi síðar en 1. apríl 2010, merktar ,,Náttúruverndarviðurkenning Sigíðar Tómasdóttur”, á póstfangið postur (hjá) umhverfisraduneyti.is eða með pósti í umhverfisráðuneytið, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík.

Skemmtilegt heimsmet í gróðursetningu

Með Ýmislegt

Í desember síðast liðnum settu sjálfboðaliðar nýtt heimsmet (vottað af fulltrúum Heimsmetabókar Guinness) í gróðursetningu, þegar 100 sjálfboðaliðar gróðursettu 26,422 plöntur á einum klukkutíma. Gerðist þetta í Gransha Woods í Londonderry  á Norður-Írlandi. Þessi skemmtilegi atburður var hluti af sérstöku átaki undir heitinu Tree O‘Clock, en þá gróðursetti fólk um allt Bretland og víðar á sama klukkutímanum. Var þessi viðburður í tilefni Trjávikunni (National Tree Week) í Bretlandi.

Þess má til gamans geta að metið í gróðursetningu trjáa á 24 tímum af teymi 300 manna eru 541,176 plöntur og var það sett í Pakistan í júlí í fyrra.

Á heimasíðu Guinness World Records má svo finna ýmis önnur skemmtileg met tengd trjám, t.d. stærsta tré sem hefur verið endurplantað, elsta tréð og stærsta lifandi jólatréð.

heimsmetgrodursetning
(Mynd: RF).

Andlát: Guðmundur Örn Árnason

Með Ýmislegt

Guðmundur Örn Árnason skógfræðingur lést í Sunnuhlíð í Kópavogi 18. febrúar. Guðmundur var 79 ára að aldri, fæddur á Bragagötu 18. júní 1930. Guðmundur lætur eftir sig fimm uppkomin börn, en kona hans,  Sólveig Ágústa Runólfsdóttir, lést árið 2005.

Guðmundur lauki námi sem skógfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum í Ási árið 1959. Hann starfaði í Skógræktarstöðinni Alaska, við Raunvísindastofnun Háskólans, sem kennari í Þinghólsskóla í Kópavogi og hjá Skógrækt ríkisins. Hann var einn stofnenda Skógræktarfélags Kópavog árið 1969 og var formaður þess til 1972 og framkvæmdastjóri félagsins 1972-1975. Hann var gerður heiðursfélagi Skógræktarfélags Kópavogs árið 2003 og hlaut viðurkenningu Skógræktarfélags Íslands fyrir framlag til skógræktar árið 2004.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Guðmundar innilegar samúðarkveðjur.

gudmundurorn
Guðmundur Örn Árnason (Mynd: EG).