Skip to main content
Flokkur

Fulltrúafundir

Fulltrúafundur 2022

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna verður haldinn laugardaginn 11. júní í sal Skógræktarfélags Kópavogs í Guðmundarlundi. Þema fundarins er bætt aðgengi að útivistarskógum skógræktarfélaga.

Dagskrá:

Bætt aðgengi að útivistarskógum skógræktarfélaga

9:30 – 9:40            Setning
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands

9:40 – 10:00          Skógarauðlindin – útivistarsvæði skógræktarfélaganna
Björn Traustason, form. Sk. Mosfellsbæjar

10:00-10:20           Á meðal trjánna
Jón Ásgeir Jónsson, verkefnisstjóri hjá Sk. Íslands

10:20 – 10:40         Almannavarnir tengdar skógræktarsvæðum
Áslaug Ellen Yngvadóttir, sérfræðingur í Almannavörnum

10:40 – 11:00      Fjármögnun verkefna og bætt aðgengi í Kjarnaskóg
Rebekka Kristín Garðarsdóttir, stjórnarmaður  Sk. Eyfirðinga

11:00                     Pallborð – Fyrirspurnir og umræður

12:00                     Hádegishlé: Veitingar á vegum SÍ

13: 00 13:20          Gerð og lega göngustíga og uppbygging annarra innviða í útivistarskógum
Einar Jónsson, verkefnisstjóri hjá Sk. Íslands

13:20- 13:40          Landnemar og reynsla Skógræktarfélags Reykjavíkur
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Sk. Reykjavíkur

13:40- 14:20          Ávinningur þess að bæta aðgengi í skógum félagsins
Vagn Ingólfsson, formaður Sk. Ólafsvíkur og Hilmar Már Arason, gjaldkeri Sk. Ólafsvíkur

14:20                     Pallborð  og fyrirspurnir

Gönguferð og kynning á Guðmundarlundi. Veitingar á vegum SÍ

 

Staðsetning Guðmundarlundar (Google Maps)

Fulltrúafundur 2019

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna verður haldinn laugardaginn 16. mars kl. 10-16 og verður hann haldinn í félagsheimili Orkuveitunnar í Elliðaárdal.

Meginþemu fundarins eru Landgræðsluskógar og Græni stígurinn, en auk þess er gert ráð fyrir almennum umræðum þar sem félögin geta rætt það sem brennur á þeim.

Dagskrá fundar:

10:00-10:05  Setning
Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
10:05-10:30 Nýr samningur um Landgræðsluskóga
Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands
10:30-10:55 Dótakassinn – tól og tæki í skógræktarstarfinu
Einar Gunnarsson, Skógræktarfélagi Íslands
10:55-11:20 Kortlagning með GSM-síma og opnum hugbúnaði
Bjarki Þór Kjartansson, Skógræktinni
11:20-11:30 Skógargáttin
Jón Ásgeir Jónsson, Skógræktarfélagi Íslands
11:30-11:55 Landgræðsluskógar frá sjónarhóli þátttakenda
Else Möller, Skógræktarfélaginu Landbót
11:55-13:15 Hádegishressing
13:15-13:30 Loftslagsskógar í Mosfellsbæ
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar
13:30-13:50 Græni stígurinn
Þráinn Hauksson, Landslagi
13:50-16:00 Almennar umræður – hvað brennur á skógræktarfélögunum?
Samantekt og niðurstöður.
16:00- Léttar veitingar

Fundarstaður – Félagsheimili Orkuveitunnar (Rafveituheimilið)

Fulltrúafundur 2017

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna 2017 var haldinn laugardaginn 25. mars í sal Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1. Meginþema fundarins var verkefnið Landgræðsluskógar. Fundargerð fundarins má lesa hér (pdf).

Dagskrá

10:00 – 10:05 Setning. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
10:05 – 10:20 Landgræðsluskógar: Upphaf, tölfræði, breytingar. Starfsfólk SÍ.

10:20 – 10.35 Græðum hraun og grýtta mela. Árni Þórólfsson

10:35 – 12.00 Hópavinna

Plöntu- og landval og gróðursetning
Utanumhald – samningar, skráningar og skýrslugerð
Umhirða og uppbygging innviða í landgræðsluskógunum
Árangursmat – hvað hefur áunnist og hvað mætti betur fara
12:00 – 13:00 Hádegishlé – Súpa og brauð

13:00 – 13:35 Hópstjórar kynna niðurstöður

13:35 – 14:00 Íslensk skógarúttekt og skógar skógræktarfélaganna. Björn Traustason

14:00 – 14:15 Fulltrúi Umhverfisráðuneytis. Björn H. Barkarson

14:15 – 15:00 Umræður og ályktanir

Fulltrúafundur 2013

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur Skógræktarfélags Íslands 2013 var haldinn í Hestamiðstöð Íshesta við Kaldárselsveg í Hafnarfirði laugardaginn 6. apríl. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn, en því næst flutti Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, stutt ávarp. Að því loknu komu fulltrúar þeirra félaga sem mætt voru hver á fætur öðrum upp í pontu og sögðu frá því helsta sem viðkomandi félag er að fást við. Eins og gefur að skilja er það nokkuð misjafnt eftir aðstæðum á hverjum stað og stærð skógræktarfélaga.

Að loknum hádegisverði voru svo þrjú áhugaverð erindi flutt. Gísli Eiríksson, formaður Skógræktarfélags Ísafjarðar, fjallaði um Landgræðsluskóga, en hann er formaður nefndar sem fer með málefni þeirra. Fór hann sérstaklega yfir úttekt er gerð var á Landgræðsluskógum og athugun með útboð á grisjun í skógunum. Því næst tók til máls Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins og sagði frá nýafstaðinni vinnu að stefnumótun um skógrækt, helstu þætti hennar og næstu skref í þeim málum. Einnig kom hann inn á grisjunarþörf í skógum á Íslandi. Í síðasta erindinu fjallaði Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi á Fitjum, um gróðurelda og fór yfir ýmsa þætti er lúta að hættumati á gróðureldum, sem og tryggingamál því tengt. Spunnust miklar umræður um öll erindin.

Fundinum lauk svo formlega með gönguferð um Höfðaskóg undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, en hann var einnig fundarstjóri á fundinum. Gönguferðinni lauk svo aftur í Hestamiðstöðinni, þar sem hressing beið þátttakenda og eins og verða vill þegar skógræktarfólk kemur saman urðu þar áfram miklar umræður um hin ýmsu málefni skógræktar.

Fulltrúafundur 2012

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur Skógræktarfélags Íslands 2012 var haldinn að Úlfljótsvatni laugardaginn 14. apríl, í Strýtunni – Útilífsmiðstöð Skáta.Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn. Því næst tók við frumsýning á tveimur nýjum kynningarmyndum, um Starfs skógræktarfélaganna og Græna stíginn. Kynnti Óskar Þór Axelsson kvikmyndagerðarmaður myndina, en hann vann hana í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og þá sérstaklega Einar Örn Jónsson.

Að sýningu myndanna lokinni tók til máls Ólafur J. Proppé, formaður fræðsluráðs í stjórn Bandalags íslenskra skáta, og sagði frá starfsemi Skáta á Úlfljótsvatni, en þeir hafa verið þar með starfsemi í eina sjö áratugi, sem og frá stefnumörkun Skátanna.

Því næst kynnti Auður Sveinsdóttir, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, nokkrar hugmyndir að landnýtingu á Úlfljótsvatni, sem nemendur á umhverfisskipulags og skógræktarbraut Landbúnaðarháskólans unnu sem verkefni. Kenndi þar ýmissa grasa og vakti til dæmis hugmynd um „tásustíg“ nokkra athygli, en þar er átt við stíg með fjölbreytt yfirborð, sem fólk gengi berfætt eftir.

Björn Traustason, Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá, fjallaði svo um eignarhald á skógum, en greining þar á hefur verið unnin út frá gögnum Íslenskrar skógarúttektar og var áhugavert að sjá hversu öflug skógræktarfélögin hafa þar verið í að skógvæða landið.

Síðastur á mælendaskrá var Böðvar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Árnesinga, og fór hann yfir kvæmi til jólatrjáaframleiðslu.

Þátttakendur á fundinum skiptu sér svo á milli tveggja umræðuhópa; annars vegar um Úlfljótsvatn og framtíðarhorfur og möguleikum þar, og hins vegar um jólatré, framleiðslu þeirra og sölu.

Fundinum lauk svo formlega með vettvangsferð um Úlfljótsvatn. Var litið yfir svæði Skólaskóga, þar sem grunnskólar í Reykjavík hafa gróðursett plöntum úthlutað úr Yrkjusjóði í vel á annan áratug, og Bernskuskóga. Einnig var litið við á bænum Úlfljótsvatni og haldið til Úlfljótsvatnskirkju. Ferðin endaði svo á móttöku í Strýtunni, þar sem hressing beið þátttakenda og voru ýmis skógræktarmál rædd  þar.

Fulltrúafundur 2011

Með Fulltrúafundir

Laugardaginn 26. febrúar var fulltrúafundur skógræktarfélaganna haldinn og var Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gestgjafi fundarins. Þema fundarins að þessu sinni voru hinar ýmsu skógarnytjar. Á fundinn mættu um 50 fulltrúar frá skógræktarfélögum um land allt.

Fundurinn hófst með ávörpum Þuríðar Yngvadóttur, formanns Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélag Íslands, en síðan tóku við fræðsluerindi. Fyrstur tók til máls Björgvin Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands og fjallaði hann um jólatrjáarækt. Fór hann yfir ræktun og sölu þeirra hérlendis,  helstu tegundir og markaðshlutdeild íslenskra jólatrjáa. Einnig fór hann yfir mismunandi ræktunaraðferðir og hverju þyrfti að huga að í framtíðinni. Því næst fjallaði Steinar Björgvinsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, um trjágreinar sem skreytingarefni, en hann vann lokaverkefni  sitt í skógrækt um mat á hentugleika efniviðar úr íslenskri skógrækt til skreytingagerðar. Fór hann yfir helstu not trjágreina og annars skógarefnis til skreytinga og stærð markaðarins fyrir þetta efni. Einnig tók hann fyrir helstu tegundir sem fluttar eru inn og fór yfir hvaða tegundir í ræktun hér gætu mögulega leyst hluta innflutningsins af hólmi.  Síðan tók til máls Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og fjallaði hann um sveppi og sveppatínslu. Fór hann almennt yfir hvað sveppir sé og yfir helstu matsveppi sem finnast í íslenskum skógum. Einnig fjallaði hann um helstu atriði er hafa þarf í huga við sveppatínslu og  mat á verðmæti sveppa, en engar almennilegar rannsóknir hafa farið fram á því hérlendis. Að erindi Bjarna loknu tók við hádegisverður.

Eftir hádegismat fjallaði Karen Pálsdóttir, Háskóla Íslands, um ber og berjatínslu í Heiðmörk. Rannsakaði hún það sem hluta af stærra verkefni um virði Heiðmerkur, en markmið þess er að gera fyrstu heildstæðu rannsóknina á virði þjónustu náttúrunnar á Íslandi. Snérist rannsókn hennar um að afla grunnupplýsinga um útbreiðslu berja, kanna nýtingu þeirra og áætla virði þeirra. Þá fjallaði Ólafur Erling Ólafsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, um viðarafurðir. Fór hann yfir helstu vöruflokka viðarafurða sem unnir eru úr skógum landsins í dag, hugmyndir um framtíðarnot og af hverju þurfi að huga í því sambandi.  Björn Traustason, Skógrækt ríkisins, fjallaði svo stuttlega um skógarstaðal sem unnið hefur verið að og prófun hans á einum skógarreita Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Lilja Oddsdóttir kynnti svo félagið Á-vöxtur, sem er hvatafélag um ræktun ávaxtatrjáa á Íslandi.

Eftir töluverðar umræður um efni erinda var haldið í skoðunarferð um nokkra skógarreiti Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Byrjað var í Hamrahlíð, þar sem Ólafur Erling Ólafsson sýndi  útkeyrsluvél, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur fékk í byrjun nóvember, en hún hentar mjög vel fyrir skógar- og útivistarreiti skógræktarfélaga, þar sem hún er nett og fer betur með skógarbotninn. Því næst var ekið að nýju sumarhúsi Skógræktarfélag Mosfellsbæjar við Hafravatn, en það var byggt í stað Sumargerðis, sumarbústaðar félagsins, sem brann í fyrra. Húsið er skemmtilega staðsett og verður mjög fínn samkomustaður þegar það er fullbúið. Litið var um í Þormóðsdal og svo kíkt á skógarreiti í Mosfellsdal, en vegna snjóa var ekki hægt að skoða reitina eins vel og til stóð.

Fundinum lauk svo með samkomu í Harðarbóli, félagsheimili Hestamannafélagsins Harðar, þar sem fundarfulltrúum og öðrum gestum gafst tækifæri til að ræða skógarmálin frekar.

 

Fulltrúafundur 2007

Með Fulltrúafundir

Árlegur Fulltrúafundur skógræktarfélaganna var haldinn í Norræna húsinu laugardaginn 17. mars 2007.

Magnús Jóhannesson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Fundurinn hófst á undirskrift víðtæks samstarfssamnings Skógræktarfélags Íslands við Olís, um margvíslegan stuðning Olís við skógrækt og uppbyggingu á skógræktarsvæðum.

Því næst komu tvö áhugaverð fræðsluerindi. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, fjallaði um loftslagsbreytingar og þau áhrif sem þær geta haft á ræktunarskilyrði á Íslandi. Því næst hélt Soffía Waag Árnadóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri Kolviðarsjóðs, kynningu á sjóðnum, markmiðum hans og hlutverki.

Næstur á mælendaskrá var Reynir Kristinsson, forseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst í Borgarfirði, sem kynnti yfirstandandi vinnu við nýja stefnumótun Skógræktarfélags Íslands, en sú stefnumótun var meginþema Fulltrúafundarins að þessu sinni.

Að lokinni kynningu Reynis var fundarmönnum skipt í fjórar nefndir, sem hver fjallaði um tiltekið efni stefnumótunarinnar, og fór það sem eftir var af fundinum í nefndavinnuna. Líflegar umræður urðu í öllum nefndunum og komu fram ýmsar áhugaverðar og gagnlegar athugasemdir og ábendingar. Fulltrúafundinum lauk svo formlega með samantekt nefnda og almennum umræðum.

Fundarstjóri var Páll Ingþór Kristinsson.

Eftir fundinn var haldinn skógræktarfagnaður, með léttum veitingum í boði Umhverfisráðherra.

Fulltrúafundur 2006

Með Fulltrúafundir

Árlegur Fulltrúafundur skógræktarfélaganna 2006 var haldinn í Reykjavík laugardaginn 11. mars 2006, í Öskju – Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands (sal N- 132).

Fundarstjóri var Vilhjálmur Lúðvíksson.
Fundurinn var settur með ávarpi Magnúsar Jóhannessonar, formanns Skógræktarfélags Íslands.
Því næst voru haldin erindi:
Einar Gunnarsson og Ragnhildur Freysteinsdóttir, Skógræktarfélag Íslands: Félagsmenn skógræktarfélaga og félagasöfnun – Reynsla og veganesti.
Jón Kr. Arnarsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga:
Skógræktarfélag Eyfirðinga – Öflugt og sýnilegt félagsstarf.

Kristján Bjarnason, formaður Skógræktarfélags Vestmanneyja:
Suðvestan þrjátíuogþrír.
Barbara Stanzeit, stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Garðabæjar:
Er raunhæft að fjölga skógræktarfélögum í 10.000 á næstunni?
Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs:
Frá hugsjón til nýrra tíma. Eru skógræktarfélögin á tímamótum?

Eftir erindin voru svo umræður um efnið sem kynnt var og annað sem brann á fólki.
Eftir Fulltrúafundinn héldu Skógræktarfélag Íslands, Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá og Skógræktarfélag Reykjavíkur fjölsótta, opna ráðstefnu, „Skógar í þágu lýðheilsu á Íslandi“, á sama stað.
Mikil ánægja var með ráðstefnuna og fékk hún töluverða umfjöllun í fjölmiðlum.

Fulltrúafundur 2008

Með Fulltrúafundir

Tekið var upp nýtt fyrirkomulag á fulltrúafundinum árið 2008, þar sem í stað eins fundar í Reykjavík voru haldnir nokkrir  fundir úti á landi. Árið 2008 voru haldnir fundir á Akureyri, Hótel Hamri í Borgarfirði og á Skógum.

Fulltrúafundur Akureyri

Fyrsti Fulltrúafundurinn var haldinn í blíðskaparveðri á Akureyri laugardaginn 5. apríl. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Því næst tók til máls Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri Akureyrar, en hún hvarf svo af braut til að sinna afmæli sonar síns. Var þá komið að skógræktarfélögum á Norðurlandi að kynna starfsemi sína. Mættir voru fulltrúar frá fimm félögum. Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, formaður Skógræktarfélags S-Þingeyinga, reið á vaðið. Því næst kynnti Ingibjörg Axelsdóttir starfsemi Skógræktarfélags Skagfirðinga. Næstur tók til máls Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga. Því næst kynnti Margrét Jónsdóttir Skógræktarfélag N-Þingeyinga, með innslagi frá Erlu Óskarsdóttur. Seinasta kynning var svo á Skógræktarfélagi Eyfirðinga og sá Sigrún Stefánsdóttir, formaður félagins, um það, en hún var einnig fundarstjóri. Einnig steig í pontu Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélagsins og varamaður í stjórn Skógræktarfélags Íslands.

Eftir hádegismat voru svo tvö erindi. Fyrst fjölluðu Brynjólfur Jónsson og Einar Gunnarsson, frá Skógræktarfélagi Íslands, um Landgræðsluskógana og nýjungar í starfi, sérstaklega fyrirsjáanlegar breytingar tengdar frystingu á plöntum. Því næst fjallaði Hallgrímur Indriðason, skógræktarráðunautur á skipulagssviði hjá Skógrækt ríkisins, um skipulagsmálin í sveitarfélögum.

Var fundi síðan slitið og haldið í skoðunarferð í Kjarnaskóg, enda viðraði sérlega vel til útivistar, þar sem veður var stillt og heiðríkt. Þar tók Bergsveinn Þórsson á móti fundarmönnum og leiddi gönguferð um skóginn . Gönguferðinni lauk í gróðrarstöðinni í Kjarna, Sólskógum, þar sem Katrín Ásgrímsdóttir tók á móti hópnum og bauð upp á ketilkaffi og kræsingar.

Fulltrúafundur Hótel Hamri

Annar Fulltrúafundur skógræktarfélaganna var haldinn á Hótel Hamri í Borgarfirði laugardaginn 12. apríl. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Því næst tók til máls Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, og sagði frá Borgarbyggð. Þá var komið að skógræktarfélögum frá Vesturlandi og Suðvesturlandi að kynna starfssemi sína, en mættir voru fulltrúar frá tólf félögum, auk eins fulltrúa frá Norðurlandi. Hjördís Geirdal, formaður Skógræktarfélags Borgarfjarðar, reið á vaðið, en hún var jafnframt fundarstjóri. Næstur steig í pontu Skúli Alexandersson, formaður Skógræktar- og landverndarfélagsins undir Jökli. Því næst kynnti Gústaf Jarl Viðarsson Skógræktarfélagið Dafnar, en það hefur nokkra sérstöðu meðal skógræktarfélaga, því félagar þess eru nemar í Landbúnaðarháskóla Íslands. Næst tók til máls Margrét Guðjónsdóttir, formaður Skógræktarfélags Heiðsynninga, og lauk hún máli sínu á því að fara með vísu. Því næst kynnti Bjarni O.V. Þóroddsson tvö félög, Skógræktarfélag Skilmannahrepps og Skógræktarfélag Akraness. Næstur á mælendaskrá var svo Þorvaldur Böðvarsson og kynnti hann Skógræktarfélag V-Húnavatnssýslu. Á eftir honum fylgdi svo Gunnar Njálsson, formaður Skógræktarfélags Eyrarsveitar. Var því næst komin röðin að skógræktarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Elísabet Kristjánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, reið á vaðið, en því næst tók til máls Jónatan Garðarsson og kynnti Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Kristján Bjarnason fjallaði svo um Skógræktarfélag Reykjavíkur og á eftir honum kom Halldór Halldórsson, formaður Skógræktarfélags Skáta við Úlfljótsvatn. Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar, steig svo næst í pontu og síðast en ekki síst kom Jónína Stefánsdóttir og kynnti starfsemi Skógræktarfélags Kópavogs. Eftir nokkrar umræður var svo haldið í hádegismat.

Eftir hádegismat voru svo þrjú erindi. Fyrst fjallaði Einar Gunnarsson, frá Skógræktarfélagi Íslands, um breytingar á geymslu og flutningum trjáplantna, sérstaklega tengdar frystingu á plöntum. Því næst fjallaði Sigríður Björk Jónsdóttir, varaformaður skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar um skipulagsmál í sveitarfélögum og spunnust töluverðar umræður um það mál. Seinastur á mælendaskrá var svo Ragnar Frank Kristjánsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hélt aðeins áfram með skipulagsmál og skógrækt.

Var fundi síðan slitið og haldið út í sólskinið. Byrjað var á að ganga upp að gamla bænum á Hamri, sem nú er klúbbhús Golfklúbbs Borgarness, þar Guðmundur Eiríksson sagði frá ræktun skjólbelta og trjáa við golfvöllinn. Því næst var haldið út í skóg í Einkunnum, þar sem boðið var upp á hressingu og Björg Gunnarsdóttir, umhverfis- og upplýsingafulltrúi Borgarbyggðar, sagði frá svæðinu.

Fulltrúafundur Skógum
Þriðji fulltrúafundur skógræktarfélaganna var haldinn á Skógum undir Eyjafjöllum laugardaginn 22. nóvember. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, en á eftir honum hélt Ólafur Eggertsson, oddviti Rangárþings eystra, ávarp. Valborg Einarsdóttir, hjá Garðyrkjufélagi Íslands, hélt svo erindi um innlend efni í blómaskreytingar úr skóginum. Því næst kynntu skógræktarfélög á Suðurlandi starfsemi sína, en mættir voru fulltrúar frá þremur félögum. Rannveig Einarsdóttir kynnti skógræktarfélag A-Skaftfellinga, Valgerður Auðunsdóttir kynnti starfsemi Skógræktarfélags Árnesinga og Sigríður Heiðmundsdóttir fjallaði um Skógræktarfélag Rangæinga. Auk þess kynnti Sigríður Jónsdóttir Skógræktarfélag Hrunamannahrepps, en það er deild í Skógræktarfélag Árnesinga.  Í lok fundar fjallaði Brynjólfur Jónsson, Skógræktarfélagi Íslands, um drög að aðgerðaáætlun um atvinnuskapandi verkefni.

Fulltrúafundur 2009

Með Fulltrúafundir

Árið 2008 var tekið upp nýtt fyrirkomulag fyrir fulltrúafund skógræktarfélaganna, á þann hátt að í stað eins fundar í Reykjavík voru nokkrir fundir haldnir úti á landi. Voru haldnir fundir á Norðurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi árið 2008 og var hringnum um landið lokað með fulltrúafundi á Austurlandi árið 2009.

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna á Austurlandi var haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum laugardaginn 21. mars. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, þar sem hann fór stuttlega yfir helstu viðfangsefni félagins nú um stundir, sérstaklega atvinnuátak 2009-2011. Því næst flutti Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, stutta tölu þar sem hann fjallaði um mikilvægi skóga og skógræktar á Héraði.  Að ávörpum loknum fluttu erindi þeir Hallgrímur Indriðason og Þröstur Eysteinsson, hjá Skógrækt ríkisins. Fjallaði erindi Hallgríms um stöðu skógrækt í skipulagsferlinu, helstu lög sem um þau mál gilda, almennt verklag og almenna stöðu skógræktar. Erindi Þrastar hét „Hvar á að pota niður blessuðum trjánum?“ og fór hann þar yfir viðhorf til skógræktar eins og þau koma fram í könnunum og opinberri umræðu í dagblöðunum, en viðhorf til skógræktar skiptir miklu máli upp á landval fyrir skógrækt. Að loknum hádegisverði kynntu skógræktarfélög starfsemi sína, en mættir voru fulltrúar frá fimm skógræktarfélögum. Rannveig Einarsdóttir og Elín Harðardóttir kynntu Skógræktarfélag Austur Skaftfellinga, Orri Hrafnkelsson fjallaði um Skógræktarfélag Austurlands, auk þess að stýra fundi, Ásmundur Ásmundsson kynnti Skógræktarfélag Reyðarfjarðar, Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir fór yfir starfsemi Skógræktarfélags Djúpavogs og Finnbogi Jónsson kynnti Skógræktarfélag Fáskrúðsfjarðar. Spunnust nokkrar umræður í kjölfar þeirra.

Að kynningum loknum var haldið í skoðunarferð til Gróðrarstöðvarinnar Barra á Valgerðarstöðum.