Skip to main content
All Posts By

ragnhildur

Takmörkuð viðvera á skrifstofu 10. mars 2020

Með Fréttir

Þar sem skrifstofuhúsnæði Skógræktarfélags Íslands verður vatnslaust stærsta hluta dags þriðjudaginn 10. mars verður takmörkuð viðvera starfsfólks á skrifstofunni. Ef þið eigið erindi á skrifstofuna vinsamlegast hringið á undan í síma 551-8150 til að athuga hvort einhver sé á staðnum.

Hafnarfjörður Forestry Association General Annual Meeting 2020

Með News

The Hafnarfjörður Forestry Association holds its general annual meeting on Thursday April 2nd at Apótekið, Hafnarborg, Strandgata 34. The meeting starts at 20:00. A proposal for amending the association‘s bylaws regarding its board will be presented.

Following regular meeting activities the association offers coffee refreshments, followed by a presentation by the product designer Sóley Þráinsdóttir, titled „Forest produce and cleaning products“.

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2020

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2020 verður haldinn fimmtudaginn 2. apríl í Apótekinu, Hafnarborg, Strandgötu 34. Fundurinn hefst kl. 20:00. Kynnt verður tillaga að lagabreytingu á stjórn félagsins. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum býður félagið upp á kaffi. Eftir kaffihlé um kl. 21:15 flytur Sóley Þráinsdóttir vöruhönnuður erindi sem hún nefnir „Skógarafurðir og hreinlætisvörur“. Fundi slitið um kl. 21.35.

Skógræktarfélag Akraness – fræðslufundur: Útivistarskógar

Með Fréttir

Skógræktarfélag Akraness stendur fyrir almennum fundi um útivistarskóga og svæði Skógræktarfélags Akraness í Grundaskóla mánudaginn 2. mars kl. 20.

Jón Ásgeir Jónsson skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands fjallar um útivistarskóga á Íslandi. Meðal annars verður fjallað um svæði Skógræktarfélags Akraness en Jón Ásgeir hefur tvö undanfarin ár komið með sjálfboðaliðum og unnið með okkur í skógræktinni.

Á hvað leggjum við áherslu á svæðum okkar? Hvað getum við gert betur?

Fundurinn er öllum opinn og áhugafólk um útivist og skógrækt er hvatt til að mæta og kynna sér svæði okkar og starf og taka þátt í umræðum.

Nánari upplýsingar má fá í síma 861 1404 (Katrín) og 899 7328 (Bjarni), á heimasíðu félagsins: https://www.skogak.com/ og á Facebook: https://www.facebook.com/groups/326273417742172/

Stjórn Skógræktarfélags Akraness

Aðalfundur 2020

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn laugardaginn 5. september 2020 og var það 85. aðalfundur félagsins. Fundurinn var haldinn í fundarsal í Arionbanka í Borgartúni í Reykjavík. Upphaflega stóð til að halda fundinn í Mosfellsbæ, með Skógræktarfélag Mosfellsbæjar sem gestgjafa, en vegna samkomutakmarkana vegna kórónaveiru var ákveðið að halda fundinn með öðrum hætti.. Voru eingöngu kjörnir fulltrúar skógræktarfélaga boðaðir á fundinn, til að afgreiða skylduverkefni aðalfundar skv. 6 greina laga félagsins. Einnig var fulltrúum boðið upp á að fylgjast með fundinum í fjarfundi.

Fundurinn hófst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, þar sem hann fór yfir helstu atriði úr starfi félagsins á starfsárinu. Brynjólfur Jónsson kynnti reikninga félagsins og Þuríður Yngvadóttir, formaður Landgræðslusjóðs, flutti skýrslu sjóðsins. Reikningar og starfsskýrsla voru svo borin upp til samþykktar og voru hvoru tveggja samþykkt. Ein tillaga að ályktun var lögð fyrir fundinn, um lífrænar varnir í skógrækt og var hún samþykkt.

Því næst var haldið til kosninga. Jónatan Garðarsson var endurkjörinn formaður félagsins. Úr stjórn áttu að ganga Sigrún Stefánsdóttir og Laufey B. Hannesdóttir og gaf hvorug kost á sér áfram. Í þeirra stað voru kosnar inn Nanna Sjöfn Pétursdóttir frá Skógræktarfélagi Bíldudals og Berglind Ásgeirsdóttir frá Skógræktarfélagi Suðurnesja. Varastjórn var endurkosin óbreytt og í henni sitja Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

 

Fundargögn:

Starfsskýrsla 2019-2020 (.pdf) 

Ársskýrsla og reikningar Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningar sjóða

Kolviður (.pdf)
Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)
Úlfljótsvatn sf. (.pdf)
Yrkjusjóður (.pdf)

 

 

Samningur um Rótarskot undirritaður

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands og Slysavarnarfélagið Landsbjörg undirrituðu í dag samning til 2023 um Rótarskot, en það er óhefðbundið „umhverfisskot“ til að fagna nýju ári. Boðið var upp á Rótarskot í fyrsta sinn í fyrra, en það er leið til að styrkja við hið öfluga og mikilvæga sjálfboðastarf björgunarsveitanna, fyrir þau sem vilja draga úr magni flugelda sem keyptir eru eða vilja ekki kaupa flugelda. Hvert Rótarskot gefur af sér tré, sem plantað er með stuðningi Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaganna.

Allur ágóðinn af sölu Rótarskotanna rennur til björgunarsveitanna og eru sölustaðir hjá björgunarsveitum um allt land.

Frá undirritun samningsins. Frá vinstri Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri Landsbjargar, og Jónatan Garðarsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands.

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt

Með Fréttir

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða sjö milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 20. janúar 2020.

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslan, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar. Sjá síðu sjóðsins á heimasíðu Landgræðslunnar: https://www.land.is/minningarsjodur/

Usóknir sendist til:
Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson
bt. Guðbrands Brynjúlfssonar
Brúarlandi
311 Borgarnes

Reglur um umsóknir og úthlutun styrkja úr sjóðnum

Umsóknareyðublað vegna 2020

Íslensk jólatré – græn og væn!

Með Fréttir

Það er föst jólahefð hjá mörgum fjölskyldum að sækja sér jólatré í skóginn á aðventunni og er hægt að sækja sér tré í flestum landshlutum, hjá skógræktarfélögum, Skógræktinni og skógarbændum. Fyrir þá sem hafa minni áhuga á skógargöngunni eru svo ýmsir aðilar sem selja íslensk tré.

Íslensk jólatré eru ilmandi fersk, vistvæn í ræktun og með því að kaupa íslenskt jólatré styður þú við skógræktarstarf í landinu, því fyrir hvert selt jólatré er hægt að gróðursetja tugi trjáa. Það þarf því ekki að hafa samviskubit yfir því að fella tréð!

Skógræktarfélög víða um land eru með jólatré til sölu nú í ár – nánari upplýsingar um það má finna á jólatrjáavefnum hér á síðunni.

Upplýsingar um sölu hjá Skógræktinni og skógarbændum má svo finna á heimasíðu Skógræktarinnar.

Myndakvöld Skógræktarfélags Garðabæjar

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar býður til myndakvölds í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund í Garðabæ mánudaginn 25. nóvember 2019 kl. 20.

Erla Bil Bjarnardóttir og Ragnhildur Freysteinsdóttir frá félaginu munu flytja ferðasögu í máli og myndum frá skógræktar- og menningarferð skógræktarfélaga um ítölsku Alpana í Suður-Tíról í haust.

Allir eru velkomnir!

Kaffiveitingar í boða Skógræktarfélags Garðabæjar