Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Líf í lundi 2021

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins í kringum Jónsmessuna og er markmið hans að fá fólk til að heimsækja skóga landsins og njóta þess sem þeir hafa upp á að bjóða. Undanfarið ár hefur sannarlega sýnt fram á mikilvægi skóga, en skóglendi hérlendis hafa líklega sjaldan verið notuð jafn mikið til útivistar og heilsubótar og nú.

Í ár var boðið upp á viðburði undir hatti Lífs í lundi í fjórða sinn, en alls voru fjórtán viðburðir í boði, víða um land. Flestir viðburðirnir voru haldnir laugardaginn 26. júní og gerðu veðurguðirnir sitt til að gera daginn ánægjulegan, en einmuna blíða var.

Á Facebook-síðu Líf í lundi má sjá flottar myndir frá hinum ýmsu viðburðum sem haldnir voru (https://www.facebook.com/lifilundi).

Skógarganga 17. júní

Með Fréttir

Skógræktarfélag Reykjavíkur, í samstarfi við Ferðafélag Íslands, stendur nú í sumar fyrir fjórum skógargöngum og fór sú fyrsta fram þann 17. júní í Heiðmörk. Gönguna leiddu Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Í göngunni var meðal annars hugað að varpstæði flórgoða við Elliðavatn, en starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur hafa undanfarin ár dregið greinar og sprek að vatninu, sem flórgoðaparinu fellur vel í geð. Einnig var skoðuð efnisvinnsla félagsins og sagt frá umhirðu skógarins, stígagerð, vatnsvernd og fleiru.

Fylgist með heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur – www.heidmork.is og á Facebook-síðu félagsins – https://www.facebook.com/heidmorkin/ – til að fá upplýsingar um næstu göngur.

Kolviður í samstarf við Lionsklúbb Keflavíkur og Skógræktarfélag Suðurnesja

Með Fréttir

Kolviður hefur undirritað samstarfssamning við Lionsklúbb Keflavíkur og Skógræktarfélag Suðurnesja. Samstarfið lýtur að því að Lionsklúbbur Keflavíkur mun hvetja fyrirtæki og einstaklinga á Suðurnesjum til úrbóta í loftslagsmálum með því að kolefnisbinda hjá Kolviði og mun Lionsklúbburinn fá hlutfall af þeim viðskiptum sem til koma vegna hvatningar þeirra. Mun Lionsklúbburinn svo nýta hluta þeirrar upphæðar sem í þeirra hlut kemur til að styðja Skógræktarfélag Suðurnesja til ræktunar á yndisskógi við Seltjörn.

Boðið verður upp á þann möguleika á heimasíðu Kolviðar að merkja kaup á kolefnisbindingu Lionsklúbbnum og er sá möguleiki í vinnslu.

Frá undirritun samningsins: Rafn Benediktsson (sitjandi t.v.) frá Lionsklúbbi Keflavíkur og Berglind Ásgeirsdóttir (sitjandi t.h.) frá Skógræktarfélagi Suðurnesja setja nöfn sín á samninginn, ásamt Reyni Kristinssyni, formanni Kolviðar (lengst til hægri). Mynd: BJ

Skógræktarfélag Íslands gerir samning við 66°Norður

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands og Sjóklæðagerðin/66°Norður hafa gert með sér samstarfssamning. Samningurinn er til fimm ára og er markmið hans að vinna sameiginlega að ræktun yndisskógar á Úlfljótsvatni, til að efla umhverfisvitund starfsmanna 66°N, binda kolefni og bæta umhverfið.

Samningurinn var undirritaður við hátíðlega athöfn í Úlfljótsvatnskirkju laugardaginn 29. maí. Að undirritun lokinni var haldið til gróðursetningar og fyrstu plönturnar settar niður, í blíðskaparveðri, þrátt fyrir að veður væri almennt frekar rysjótt þennan dag og virðast veðurguðirnir því hafa verið þessu verkefni velviljaðir! Dagskrá dagsins lauk svo með grilli í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.

F.v. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°N, takast í hendur að lokinni undirritun samningsins. Mynd: BJ

Það var vasklegur hópur sem nýtti góða veðrið til gróðursetningar. Mynd: BJ

Meistaravörn í skógfræði 2. júní

Með Fréttir

Þórhildur Ísberg ver meistararitgerð sína í skógfræði er nefnist „The pathogenicity of the blue stain fungus Ophiostoma clavatum in Scots pine seedlings” á ensku, en á íslensku útleggst titillinn „Sýkingarmætti grágeitarsveppsins Ophiostoma clavatum í fræplöntum skógarfuru”.

Leiðbeinendur eru dr. Riikka Linnakoski við Náttúruauðlindastofnun Finnlands (LUKE), próf. Bjarni Diðrik Sigurðsson við Landbúnaðarháskóla Íslands og dr. Risto Kasanen við Helsinkiháskóla.

Vörnin fer fram miðvikudaginn 2. júní 2021 kl. 13:00 og verður streymt í gegnum Zoom fjarfundabúnað. Nánari upplýsingar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands – lbhi.is

 

 

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2021 er komið út

Með Fréttir

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2021 er nú komið út og í póst til áskrifenda. Að venju má finna í ritinu greinar um hinar ýmsu hliðar skóga. Að þessu sinni eru meðal annars greinar um notkun aspargræðlinga í skógrækt, hæstu eikur á Íslandi, mismunandi tegundablöndur í skógrækt, skógrækt í Skálholti, skóga sem kolefnisforðabúr, mannfræðilega úttekt á skógræktarfélögunum, kynslóðaskipti í skógum, skógrækt á Reyðarfirði og hina yfirnáttúrulegu hliðar skóganna, auk viðtals – og minningargreina.

Kápu ritsins prýðir að þessu sinni myndin „Gróður jarðar“ eftir Tolla.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt.

Hægt er að gerast áskrifandi að ritinu – sjá nánar: http://www.skog.is/skograektarritid/

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar 2021

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður haldinn þriðjudaginn 18. maí kl. 20:00 í sal Björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, Völuteigi 23.

Dagskrá:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar 2020
  3. Reikningar félagsins 2020
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun um félagsgjöld 2021
  6. Kosning stjórnar og endurskoðenda
  7. Önnur mál

 

Tillögur að breytingum á lögum félagsins verða lagðar fram til samþykktar á fundinum. Tillögurnar er hægt að skoða á vef Skógræktarfélagsins www.skogmos.is

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum mun Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, halda erindi um stöðu, hlutverk og framtíðarsýn Skógræktarfélags Íslands.

Vegna Covid-19 verða engar veitingar að loknum fundinum. Farið verður eftir 2 m reglunni og verður spritt á staðnum.

Varúð! Brunahætta!

Með Fréttir

Nú er búin að vera veruleg þurrkatíð, með þurru lofti og sólskini sem þurrkar yfirborð jarðar. Í svona tíð er mikil hætta á svarð- og gróðureldum og þarf lítið til, eða eins og segir í laginu „Af litlum neista verður oft mikil bál“, eins og nýjustu fréttir úr Heiðmörk sýna alltof vel.

Því skiptir miklu máli að ganga sérstaklega varlega um:

  • Hendið ekki sígarettum/vindlingum á víðavangi (á ekki að gera hvort sem er, en á sérstaklega við nú!).
  • Bíðið með grillið/varðeldinn/kamínuna þar til kemur væta og almennt gildir að forðast skal að nota einnota grill og alls ekki setja þau niður á gróið land.
  • Látið vita ef þið verðið vör við óábyrga umgengni.

Kynnið ykkur forvarnir og fyrstu viðbrögð – greinargóðar upplýsingar má finna á https://www.grodureldar.is/

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga verður haldinn á Hótel Kjarnalundi þriðjudaginn 11. maí og hefst hann klukkan 19:30.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Vegna óvissu um fjöldatakmarkanir eru þátttakendur beðnir um að skrá sig á stjorn@kjarnaskogur.is með nafni, kennitölu og símanúmeri. Einnig hægt að hafa samband í 866-4741.

Fundurinn  á Facebook: https://www.facebook.com/events/373255723934687/